152. löggjafarþing — 14. fundur,  21. des. 2021.

fjáraukalög 2021.

174. mál
[16:19]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P):

Forseti. Þetta er áhugaverður fjárauki fyrir margar sakir. Við byrjum að sjálfsögðu á tillögu stjórnarandstöðunnar, minni hlutans, um eingreiðslu til öryrkja sem var samþykkt í fjárlaganefnd að meiri hlutinn tæki undir. Það er mikið gleðiefni. Ég veit ekki hvort þetta er í fyrsta skipti sem það gerist, alla vega á þennan hátt. Ég get ekkert nema hrósað fyrir það. Megi hefðirnar breytast, ef ég orða það sem svo, og vonandi meira seinna. Mig langar til að tala um það sem ég fjallaði um í nefndaráliti mínu, átakið Hefjum störf. Það er stærsti útgjaldaliðurinn í fjáraukalagafrumvarpinu, upp á 6,1 milljarð kr. Það átti að kosta 4,3 milljarða. Lagt var upp með það þegar ríkisstjórn var nýbúin að gera nýja fjármálaáætlun sem hún seinkaði síðan með því að segja: Það er svo mikið óvissuástand út af faraldrinum að við treystum okkur ekki til þess að setja stefnu til að eyða óörygginu, til að eyða óvissunni. Þá verðum við að seinka því að leggja fram stefnu út úr faraldrinum.

Þegar stefna stjórnvalda birtist síðan í fjármálaáætlun — óþægilegt að hafa þessi orð aðeins á þvælingi, fjármálastefna inniheldur ekki stefnu stjórnvalda í einstaka málaflokkum heldur kemur hún fram í fjármálaáætlun — þá var hún hvorki fugl né fiskur. Öll vinnumarkaðsúrræði vantaði miðað við spár um þróun á atvinnuleysi og stöðuna á vinnumarkaðnum. Stjórnarandstaðan gagnrýndi aftur og aftur, í gegnum alla umræðuna um fjármálaáætlunina og fjárlögin, að ríkisstjórnin væri ekkert að gera í vinnumarkaðsmálum. Örstuttu seinna, eftir áramót, dregur ríkisstjórnin upp úr hattinum aðgerðina Hefjum störf, býr hana til alveg á eigin forsendum og kemur ekki til þingsins og rökstyður aðgerðina. Hún segir ekki að þessi aðgerð fyrir 4,3 milljarða sé gríðarlega góð notkun á almannafé af því að hún skili okkur gríðarlega miklum árangri, 7.000 störfum o.s.frv., og sé miklu betri en allar aðrar leiðir sem hafi verið lagðar til. Það er lykilatriðið: Betri en allar aðrar leiðir sem hafa verið lagðar til. Nær hún betri árangri? Við vitum það ekki af því að við vitum ekki hvaða aðrar tillögur voru lagðar til grundvallar. Kostar hún minna? Við höfum ekki hugmynd um það af því að það voru engar aðrar tillögur lagðar til grundvallar. Og það á að gera samkvæmt lögum um opinber fjármál. Stjórnvöld eiga að leggja á borðið hvaða valkostir voru í boði. Það er grundvöllur þess að vera hér með gagnsæi. Stjórnsýslan leggur sitt faglega mat á mismunandi valkosti og stjórnvöld leggja síðan sitt pólitíska mat á valkostina. Pólitískt mat getur alveg breytt niðurstöðu faglegrar stjórnsýslu. Það er kannski pólitík að velja byggðasjónarmið eða sóttvarnasjónarmið eða atvinnusjónarmið kvenna eða minnihlutahópa eða eitthvað svoleiðis fram yfir annað mat sem stjórnvöld geta valið af því að stjórnsýslan segir að þetta sé betra heldur en hitt. Kannski er til einhver valmöguleiki sem er ódýrari en hentar síður út frá forsendum sem ríkisstjórnin vill frekar leggja áherslu á vegna þess sem stendur í stjórnarsáttmálanum eða eitthvað því um líkt. Þá tekur ríkisstjórnin þá pólitísku ábyrgð að fara ekki eftir faglegri niðurstöðu. Það getur alveg verið gott og blessað, það er bara pólitísk ábyrgð. En að hafa ekki þessa valkosti, sýna þá ekki og sýna ekki að þetta sé besta niðurstaðan, helst bæði pólitískt og faglega, það á ekki að gerast. Það virðist hafa gerst í nákvæmlega þessu verkefni.

Nú ætla ég ekki að segja neitt um hversu gott eða slæmt verkefnið er. Það skilaði augljóslega árangri, enda heill hellingur borgaður til að það skilaði árangri. Það var ekki bara verið að borga það sem fólk hefði fengið í atvinnuleysistekjur heldur meira. Það var borgað umfram atvinnuleysistekjur til að fólk fengi starf hjá sveitarfélögum og á ýmsum öðrum stöðum. Mjög fínt. En hefði skilað meiri árangri að gera eitthvað annað fyrir 4,3 milljarða? Við vitum það ekki. Þegar tillaga kemur um 4,3 milljarða fyrir 7.000 ný störf þá er einfaldlega rassvasareikningur að reikna 300.000 kr. eða svo í atvinnuleysisbætur fyrir hvern einstakling, fyrir 7.000 einstaklinga í hverjum mánuði, og það summast upp í 2,1 milljarð á mánuði. Þannig að 4,3 milljarðar duga rétt í rúma tvo mánuði. — En það eru ekki allir með fullar atvinnuleysistekjur þannig að segjum þrír mánuðir, þá er maður gjafmildur. Þetta er aðgerð sem var lögð fram til þriggja mánaða. Öllum ætti að vera það ljóst. Þegar talað er um sumarstörf fyrir nemendur er það t.d. þriggja mánaða tímabil. Þannig virkar þetta. Ég skil upphæðina miðað við það. Og þá á hún bara að vera búin af því að það var samþykkt fjárheimild fyrir 4,3 milljörðum. En nei, þetta hélt áfram og áfram. Að sjálfsögðu mjög fínt fyrir þá sem fengu þessi störf, mjög fínt fyrir efnahaginn og ýmislegt annað. En var það betra en eitthvað annað? Var það betra en aðrir valmöguleikar? Við vitum það ekki. Og þetta endar í 10,4 milljörðum á þessu ári í staðinn fyrir 4,3 milljörðum. 6,1 milljarður aukalega. Ríkisstjórnin ákvað bara: Nei, við ætlum að halda þessu áfram. Eigum að spyrja þingið og fá fjárheimildir fyrir þessu? Nei nei, það eru að koma kosningar og svoleiðis, best að fólk sé ekki að hrynja úr sumarstörfum sínum rétt fyrir kosningar sem eykur bara atvinnuleysið. Það kemur rosalega illa út í kosningum.

Ég vona að fólk skilji alvarleika málsins þegar, eins og hv. þm. Haraldur Benediktsson segir, að það var kosningasamhengi í stöðunni. Það er farið frjálslega með margt í fjárheimildum ríkisins þegar kosningasamhengi er annars vegar. Skýrslum er stungið undir stóla af því að þær eru óþægilegar í umræðunni. Skellum milljörðum og tugum milljóna í gæluverkefni hægri, vinstri. Ekkert mál af því að það er kosningasamhengi. Ekki nóg með að þetta séu 10,4 milljarðar á þessu ári heldur er úrræðið víst að klárast um áramótin. Hvort það gerir það, ég hef í alvörunni ekki hugmynd um það en alla vega er gert ráð fyrir því. Þess vegna er gert ráð fyrir 3,4 aukamilljörðum á næsta ári til að klára þetta úrræði, til að klára uppsagnarfrest og ýmislegt svoleiðis. Við erum komin í 13,8 milljarða fyrir þetta. Hvað hefði verið hægt að gera fyrir 13,8 milljarða í atvinnulífinu, í nýsköpun? Eitthvað sem myndi búa til fleira en — þetta voru víst 7.400 störf sem voru búin til, ekki 7.000. Allt í lagi. Ég skal alveg gútera það. Fínt, það urðu til fleiri störf. En hefði í alvörunni ekki verið hægt að gera eitthvað annað fyrir 13,8 milljarða sem hefði búið til fleiri en 7.400 störf í rétt rúma sex mánuði? Í alvöru? Hefur enginn hugmynd um hvað væri hægt að gera betur fyrir 13,8 milljarða? Ég hafði fullt af hugmyndum í umræðunni um fjáraukann þegar Covid byrjaði. Það voru fjölmörg tækifæri í boði eins og kom í ljós í sumarúthlutun Tækniþróunarsjóðs í fyrrasumar, fullt af verkefnum sem hefðu skapað atvinnu til frambúðar, ekki tímabundin störf eins og hér um ræðir, til framtíðaruppbyggingar til að vaxa út úr kófinu, og það var 8% úthlutunarhlutfall. Þetta verkefni vex ekki út úr kófinu. Þetta er tímabundinn plástur sem dugar rétt yfir kosningar, reddar atvinnuleysistölunum rétt á meðan verið er að kjósa. Mér finnst það einfaldlega ekki í lagi.

Hvað getum við gert í þessu? Því miður ekki mikið. Þetta er kosningamál, það er ekkert flóknara. En við sem þing ættum að lágmarki að krefjast þess að ríkisstjórnin sé gagnsærri með fjárheimildir sínar. Það myndi snúast um að þegar vitað væri um framúrkeyrslur fjárheimilda væri fjárlaganefnd látin vita. Ég býst ekki við miklu miðað við hvernig stjórnarmeirihlutinn starfar almennt séð. Það er bara: Já, ríkisstjórnin er að láta okkur vita af umframfjárheimild. Fínt, gerum ekkert í því. Þurfum við þá að leita fjárheimilda í fjáraukalagafrumvarpi fyrst vitað er að þetta er að fara að keyra fram úr? Nei, það kemur bara í fjáraukalagafrumvarpi í lok ársins. Það er auðveldara að summa þetta allt upp og veita leyfi eftir á en að taka umræðuna um hvort þetta sé kannski slæm notkun á almannafé. Það er ekki gert. Það má ekki koma með það inn í þingsal. Nei, kosningasamhengi ræður öllu.

Ég vil hvetja til þess að svona nokkuð gerist aldrei aftur. Ég veit ekki hvernig ég á að tryggja það. Kannski gæti ég gert það með því að setja í stjórnarskrá að ekki megi greiða fjárheimildir nema heimild sé fyrir því í fjárlögum. Nei, hei, ha? Það er í stjórnarskrá, æ, æ. Hvað get ég þá gert ef fólk er ekki einu sinni að fara eftir stjórnarskrá hvað það varðar? Það er komin hefð fyrir því að summa þetta bara upp. Ég skil að vissu leyti hvaðan sú hefð kemur, þ.e. frá þessum klassísku tilfærslukerfum, réttindakerfum sem fara yfir fjárheimildir eða jafnvel líka undir þær. Það þarf að fella niður fjárheimild ef hún er ekki öll notuð. Það kemur hvort eð er fjáraukalagafrumvarp í lok árs til að laga þessi atriði og þá er handhægt að taka allt hitt með í leiðinni. En það á ekki að gera það þannig. Við verðum að standa aðeins í lappirnar hér í þinginu. Við erum með þingbundið lýðræði. Ráðherrarnir sem eru þarna úti starfa fyrir allt þingið, þeir starfa fyrir þing og þjóð. Þeir þurfa að svara þinginu. Þeir eiga ekki að vera þarna úti að ráðskast með fjárheimildir þjóðarinnar eftir eigin geðþótta. Þeir verða að koma hingað og spyrja. Og þó að meiri hlutinn sé alveg rosalega sammála eigin ráðherrum þarf hann samt að spyrja allt þingið til að virkja eftirlitsvald þess sem þessi ríkisstjórn hefur farið gríðarlega illa með. Það er eftirlitshlutverk þingsins að spyrja einmitt af hverju verið er að fara svona glannalega fram úr fjárheimildum. Komuð þið ekki hingað í upphafi árs og sögðust ætla að búa til 7.000 störf fyrir 4,3 milljarða? Var það ekki það sem þið sögðuð? Af hverju kostar þetta þá 13,8 milljarða? Hvað er í gangi?

Ég er algerlega sannfærður um að 13,8 milljarðar til hinna ýmsu nýsköpunarverkefna, t.d. til Byggðastofnunar í Brothættar byggðir eða í Lóuverkefnið — ég hef heyrt það frá þeim sem vinna við þessar úthlutanir að það er fólk úti um allt tilbúið með fullt af verkefnum og ég er alveg sannfærður um að 13,8 milljarðar í nákvæmlega þau tækifæri hefðu búið til miklu fleiri störf. Það er bara tilfinning mín. Ég get ekki sannfært neinn um það nema með því að benda t.d. á skýrslur Tækniþróunarsjóðs eða Rannsóknasjóðs um ábata af fjármunum í slíka sjóði. Það er allt að áttfaldur ábati af framlögum í Tækniþróunarsjóð. Að vissu leyti er ákveðin mettun þar. Núna veitum við t.d. það litlar fjárheimildir til Tækniþróunarsjóðs að það fást ekki samþykkt öll bestu verkefnin. Í alvörunni þarf stundum að velja á milli umsókna sem eru bestar, þetta eru bestu umsóknirnar. Við erum með 30 umsagnir sem eru bara bestar. Við ætlum ekki að gera upp á milli þeirra en við erum bara með fjárheimild fyrir 20. Hvernig ætlum við þá að henda tíu í burtu? Stundum er valið út frá því að það er stafsetningarvilla í einni umsókninni. Við eigum ekki að vinna þannig. Tækniþróunarsjóður hefur verið mjög skýr með að að jafnaði séu um 25–33% umsókna það góðar að þær ættu tvímælalaust að fá styrk. Ábatinn er áttfaldur — og þó að hann væri sexfaldur. Ég skil ekki af hverju það er ekki einu sinni reynt. Þetta var áhersla okkar hjá í Pírötum og minni hlutanum þegar Covid byrjaði. Tækifærið var augljóst: Setjum peninginn í nýsköpun þar sem hægt er að nýta hann í gjörsamlega breyttu umhverfi faraldursástands. Nýtum tækifærin sem eru til þrátt fyrir ástandið. Nei, nei. Reyndar lagði ríkisstjórnin til 1,5 milljarða í nýsköpun á þeim tíma, 3 milljarðar áttu að fara í ferðaátak til að fá erlenda ferðamenn til landsins. Það er pínu kaldhæðnislegt, sérstaklega eftir á að hyggja, og mjög bjartsýnt og alveg örugglega orsökin að annarri bylgjunni ef maður pælir í því.

Ríkisstjórnin sá aðeins að sér og í breytingartillögum við afgreiðslu fjáraukans bætti meiri hlutinn við 1,5 milljörðum þannig að 3 milljarðar fóru í nýsköpun á þeim tímapunkti og 3 milljarðar í markaðsátak fyrir ferðaþjónustuna. Tillaga okkar í minni hlutanum var 9 milljarðar — og bara Tæknisjóður hefði nokkurn veginn getað þurrkað það upp og þá eru ótaldir allir hinir sjóðirnir. En ríkisstjórnin var hrædd um að geta ekki komið fjárheimildunum í verk sem eru rosalega skrýtin rök, alveg stórkostlega skrýtin rök. Hvað er það versta sem gerist ef ríkisstjórnin kemur ekki fjárheimildunum í verk? Þær falla niður, þeim er bara skilað. Ó, nei. En ef það er of lítið af fjárheimildum er sagt stopp. Alveg eins og með NPA-samningana: Nei, fjárheimildin er búin. Við ætlum ekki að nýta þessi aukatækifæri sem blasa við okkur. Nei, við segjum bara: Stopp, fjárheimildin er búin. En í Hefjum störf höldum við áfram fyrir fullt af milljörðum í viðbót, keyrum næstum því 10 milljarða fram úr áætlun. Ekkert mál. Það er svo rosalega nauðsynleg aðgerð, sérstaklega yfir kosningar því að annars myndi atvinnuleysið vera miklu verra en það er. Þetta er pólitíski raunveruleikinn sem við búum við í dag og pólitíski raunveruleikinn sem við verðum að stöðva. Við verðum að gera betur. Þingið verður að gera betur. En hverjir ráða hér á þingi? Það er meiri hlutinn. Hann tekur sér meirihlutavald: Við erum meiri hluti og við ætlum að eigna okkur þetta allt. Þið fáið ekkert. Ef þið ætlið að gera eitthvað þá verðið þið bara að mæta upp í ræðustól og vera með vesen.

Pælið í því. Svona er lýðræðið í dag. Ég hef kallað þetta lýðræðisþynningu. Oft eru mismunandi skoðanir innan mismunandi flokka en meiri hlutinn innan flokksins ræður niðurstöðu flokksins sem þýðir það að ef einn flokkur í ríkisstjórn er t.d. að mestu leyti mótfallinn ESB eða nýrri stjórnarskrá eða einhverju því um líku en samt eru nokkrir fylgjandi gæti það þýtt — tökum bara nýju stjórnarskrána. Nokkurn veginn allir í þessari ríkisstjórn eru á móti nýrri stjórnarskrá. Í gegnum tíðina hafa ýmsir sagt að þeir styðji nýja stjórnarskrá þó svo að að undanförnu hafi það þróast yfir í það að reyna að tala sig frá því. En gefum okkur það alla vega: Flestir innan ríkisstjórnarinnar eru á móti nýrri stjórnarskrá en ekki allir. Í stjórnarandstöðunni eru flestir, en ekki allir, sammála nýrri stjórnarskrá. Væri mögulegt að samt væri meiri hluti um þetta einstaka mál, óháð því hvaða flokkar eru í stjórn og stjórnarandstöðu, ef einstaka þingmenn fengju bara að greiða atkvæði samkvæmt sannfæringu sinni? Þetta er lýðræðisþynning þar sem flokksaginn strokar yfir sannfæringu einstakra þingmanna og eyðir t.d. með því eftirlitsvaldi þingsins, því valdi sem þingið hefur gagnvart ráðherrum, að spyrja þessarar grundvallarspurningar: Er ráðherra að beita pólitískum geðþótta? Er hann að taka pólitíska ábyrgð á ákvörðun í einstöku máli — sem er í fínu lagi, það er bara pólitískt rifrildi — eða er hann að taka geðþóttaákvörðun þvert á fagleg rök, eins og t.d. í Landsréttarmálinu? Það er besta dæmið á undanförnum árum um skýra faglega niðurstöðu um hvað ráðherra ætti að gera en ráðherra ákvað að gera allt annað, fara gegn faglegri ákvörðun án þess að rökstyðja það út frá þeim faglegu sjónarmiðum sem ráðherra bar skylda til að gera. Það var ekki pólitísk ákvarðanataka hjá ráðherra, það var geðþóttaákvörðun sem að mínu mati varðar landsdóm og lög um ráðherraábyrgð. Það er þetta sem eftirlitsvald þingsins snýst um, að greina hvort um pólitíska ákvörðun sé að ræða eða geðþóttaákvörðun. En hjá meiri hlutanum er klassískt að mála allt sem pólitískan ágreining. Þegar stjórnarandstaðan gagnrýnir og reynir að sinna eftirlitshlutverki sínu þá er það bara pólitískur leikur eða eitthvað því um líkt. Í Landsréttarmálinu var gagnrýni stjórnarandstöðunnar augljóslega ekki pólitískur leikur. Það hefur verið staðfest af öllum dómstigum, alveg upp í Mannréttindadómstólinn. En svona er hentugleikinn. Þegar þú tekur þér valdið þá áttu að bera ábyrgðina líka.

Við verðum dálítið vör við það í afgreiðslu fjárlaga að ríkisstjórnarflokkarnir vilji ekki taka ábyrgð á ýmsu, þeir vilja að tekin sé sameiginleg ábyrgð. En þetta eru flokkar sem tóku sér völdin. Þeir tóku völdin og þá verða þeir að bera ábyrgðina líka. Eitt af ábyrgðarhlutverkunum er að sýna þinginu þá virðingu að fjárheimildir séu á forræði þingsins, að eftirlit sé á forræði þingsins, að lagasetning sé á forræði þingsins. Það þýðir að ekki er gott að henda inn lagafrumvörpum án fyrirvara sem þingið á að afgreiða á núll einni. Það þýðir að ekki á að fara næstum því 10 milljarða fram úr verkefni sem átti bara að kosta 4,3 milljarða. Það þýðir að standa á við það sem stendur í lögum um að það eigi að vera 120 NPA-samningar sem ríkið á að borga með en það gerir einhverra hluta vegna ekki. Það þýðir að þegar það stendur í lögum að lífeyrir eldra fólks og öryrkja eigi að fylgja verðlagsþróun eða launaþróun, hvort sem er hærra, þá geri hann það. En hann gerir það ekki. Ég veit í alvörunni ekki af hverju. Maður hefði haldið að þetta væri algjört grundvallarmál. En meiri hlutinn, sem ber ábyrgðina, ákveður að gera eitthvað annað og hunsar í rauninni og reynir að koma í veg fyrir allar tilraunir stjórnarandstöðu til að spyrja eðlilegra spurninga um faglega ákvarðanatöku, pólitíska ákvarðanatöku eða geðþóttaákvarðanatöku.

Ég er því ekkert rosalega hrifinn af þessum fjárauka, fyrir utan það eina atriði sem ég minntist á í upphafi, en þar er um að ræða 1,2 milljarða, rúmlega 53.000 kr. eingreiðslu til lífeyris öryrkja, einfaldlega af því að á síðasta ári var launaþróun og verðlagsþróun vanmetin. Þetta eru hópar sem eru ekki með verkfallsrétt. Þau geta ekki samið um kaup sín og kjör og þá fá þau þau réttindi samkvæmt lögum að kjörin fylgi að lágmarki alltaf launaþróun eða verðlagsþróun. Svo er spáð um það í upphafi árs hver launa- og verðlagsþróun verður fyrir næsta ár. Gott og vel. Þau fá þá launahækkunina strax í byrjun árs, áður en verðbólgan raungerist, áður en launahækkanirnar raungerast. Í rauninni er hækkunin aðeins á undan. Allt í lagi, gott og blessað. En þegar árinu lýkur og maður sér í alvöru hver launa- og verðlagsþróunin var, að hún hafi verið lægri, þá gerist ekki neitt. Ef launafólk, þeir sem geta samið um kaup og kjör, semur um sín réttindi og verðbólga vex umfram þeirra samninga þá fer allt í uppnám en þegar eldra fólk og öryrkjar fá ekki lögbundnar launahækkanir þá einhverra hluta vegna gerist ekkert. Þá vill enginn bregðast við því, ekki fyrr en núna. Mér finnst það jákvætt að í fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár er viðurkennt að það var vanmat upp á 0,8% á verðlagsþróun þess árs og því er bætt við fyrir næsta ár. Ég tel það vera rétta túlkun á 69. gr. almannatryggingalaga.

En þá er eftir spurningin: Hvað með launaþróunina? Hún var enn þá hærri, hún var enn þá meira vanmetin. Það vantar að pæla í launaþróuninni. Það eru alls konar afsakanir sem við heyrum frá ráðuneytinu; að launaþróunin sé ekki lögbundið skilgreint hugtak, launavísitala sé eitthvað allt annað. Þannig að við vitum í raun ekki hvað launaþróun er. Við erum bara með eitthvert Excel-skjal þar sem við erum með hina og þessa kjarasamninga og tökum svo bara einhverja meðaltalstölu. Það þýðir að þegar verið er að semja um lífskjarasamninga, um krónutöluhækkun lægstu launa, þá er meðaltalið af því miklu lægri upphæð en þau sem eru með lægstu launin eru að fá sem prósentuhækkun. Þau sem eru á lífeyri fá bara meðalprósentutöluna og dragast þannig langt aftur úr lægstu launum. Þess vegna er mjög eðlilegt að með þessari eingreiðslu sé komið sé til móts við muninn á launaþróun sem var spáð fyrir árið 2021 og raunverulegri launaþróun fyrir árið 2021. Það er einfaldlega verið að greiða upp það sem munaði á milli, svona um það bil. Það er nokkuð nærri lagi en þetta er sett í annan búning. Það er sett í búning Covid-aðgerða sem er alveg gott og blessað líka. Ég styð það heils hugar líka, það er mjög eðlilegt sjónarhorn. En þetta er samt eitthvað sem þessi hópur á inni, alveg eins og í fyrra þegar eingreiðslan var samþykkt, þá átti sá hópur þá upphæð inni. Búið var að lofa þeim 1,1 milljarði í kerfisbreytingar sem tókst ekki að gera. Það var því til fjárheimild upp á 1,1 milljarð sem átti að setja til þessa hóps. Þegar tókst ekki að koma fjárheimildinni út var hún endurskilgreind sem eingreiðsla. Það var búið að lofa þessum hópi ákveðnum pening og þegar það tókst ekki var honum lofað aftur sem ákveðinni gjöf: Við ætlum að gefa ykkur það sem við vorum búin að lofa ykkur að við myndum gefa ykkur. Það er tvöfalt, það var eiginlega mjög skrýtið. En það er ekki alveg eins skrýtið í þetta skiptið. Núna er bara endurtekning á þeim forsendum sem gjöfin var gefin síðustu jól. En þarna undir liggur líka kjaragliðnunin sem við verðum að laga.