152. löggjafarþing — 14. fundur,  21. des. 2021.

fjáraukalög 2021.

174. mál
[16:52]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Nei, eins og ég sagði þá hef ég ekkert út á þetta einstaka átak að setja. Ég spyr hins vegar hvort hægt hefði verið að nýta þessar fjárheimildir í annað og meira, eitthvað sem hefði skilað nákvæmlega sömu fjölskyldum miklu meiri ábata, t.d. í nýsköpun og þróun út um allt land sem hefði skilað sér í fleiri störfum. Við vitum það hins vegar ekki af því að stjórnvöld gerðu ekki neinar greiningar á því hvað væri mögulegt að gera og hvað myndi skila mestum árangri. Það sem við höfum upplifað allan þennan faraldur eru handahófskenndar aðgerðir ríkisstjórnarinnar. Þær virðast dregnar upp úr hatti. Þetta verður æðisleg aðgerð — hvað var það fyrst? Brúarlán eða eitthvað svoleiðis, það var gjörsamlega gagnslaust. Hvað voru margir sem notuðu það? Innan við tíu eða eitthvað svoleiðis. Smám saman varð það skýrara að stjórnvöld þyrftu í alvörunni að stíga inn á mjög afdrifaríkan hátt, og þetta skref felur það vissulega í sér. Ef ekki hefði verið neinn betri kostur í stöðunni hefði ég tvímælalaust tekið þessa ákvörðun líka. En ég hefði vonandi komið til þingsins fyrst og sagt: Fyrirgefið, við báðum um 4,3 milljarða, það er það sem það kostaði yfir sumarið, en við ætlum að halda þessu áfram af því að þetta virkar svo vel.

Við lærðum það líka í þessum faraldri að við komumst að því eftir á hvort aðgerðirnar virkuðu vel eða ekki. Það er frekar slæmt því að fyrir á að liggja mat á því hvaða ávinningi aðgerðir eiga að skila, það á að liggja fyrir fyrir fram. Ég er að kvarta undan skorti á slíkum greiningum. Það er skylda stjórnvalda að leggja slíkt mat á borð þingsins þegar stjórnvöld biðja um fjárheimildir fyrir verkefnum sem t.d. eiga að draga úr atvinnuleysi.