152. löggjafarþing — 14. fundur,  21. des. 2021.

fjáraukalög 2021.

174. mál
[16:57]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég segi þá er ég ekki andsnúinn þessu verkefni sem ákveðinni neyðaraðstoð. Þetta er neyðarúrræði: Tökum bara atvinnuleysisbæturnar eins og þær eru og hellum þeim í það að fá atvinnurekendur til þess að ráða fólk í vinnu. Þetta er svona handbremsa eða eitthvað svoleiðis, þetta er bara mjög augljóst verkefni. En það sem við gagnrýndum í upphafi faraldursins var að það þurfti að gera hvort tveggja.

Ef við hefðum í alvörunni átt að vaxa út úr faraldrinum þá hefðum við einmitt þurft að byrja á nýsköpunarverkefnum strax af því að það tekur jú tíma fyrir þau að byggjast upp. En með hverri úthlutunin sem frestað er þá frestast ábatinn af þeim verkefnum í sex mánuði, stundum ár. Tillögur okkar í fyrsta fjáraukanum voru þannig nákvæmlega þær sömu og ríkisstjórnin var að leggja til. Við höfðum í raun ekki forsendur þá til að gagnrýna þær ítarlega af því að þær komu inn með skömmum fyrirvara. Við ákváðum bara að treysta því að þarna lægju ákveðnar faglegar forsendur að baki.

En til viðbótar, ef við ætlum að vaxa út úr faraldrinum, þurfum við líka að ráðast í nýsköpun. Það er það sem ég er að segja. Og núna er ráðist í þetta neyðarúrræði á þeim tíma sem fólk hélt að faraldrinum yrði lokið, þegar búið væri að bólusetja o.s.frv. Það er skrýtið að fara í neyðarúrræði á þeim tíma af því að það átti að vera löngu búið að setja fram stefnu þannig að ekki ríkti neyð í lok faraldursins. Það er mjög skrýtin forgangsröðun að mínu mati en mjög lýsandi fyrir það hvernig málið var tæklað á síðasta kjörtímabili, að það var aldrei gerð nein áætlun um hvað yrði gert ef þetta tækist ekki. Það var aldrei plan B. Við sáum einmitt að það var alltaf komið með nýja og nýja tillögu af því að hinar gömlu virkuðu ekki af því að faraldurinn hélt alltaf áfram. Það vantaði plan B.