152. löggjafarþing — 14. fundur,  21. des. 2021.

fjáraukalög 2021.

174. mál
[16:59]
Horfa

Stefán Vagn Stefánsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þingmanninum svarið. Ég tek alveg undir með hv. þingmanni varðandi gildi og mikilvægi nýsköpunar og nýsköpunarsjóða fyrir íslenskt samfélag og atvinnulífið. Þetta er hlutur sem við verðum að styrkja og eigum að styrkja. Ég tel að við séum að gera það, eins og fram kemur í nýju frumvarpi til fjárlaga fyrir 2022.

En það sem mig langaði líka að spyrja hv. þingmann að hér — ég hjó eftir því í ræðu hans hér áðan að hann talaði um að hann væri ekki hrifinn af þessu nefndaráliti meiri hlutans eða þessum fjárauka. Í nefndaráliti hv. þingmanns er nánast einvörðungu fjallað um verkefnið Hefjum störf. Í nefndaráliti meiri hlutans eru nú nokkur önnur verkefni sem við höfum farið í og gerum breytingartillögur um, svo sem framlög til lögreglunnar og til Leikfélags Reykjavíkur, Menningarfélags Akureyrar og sömuleiðis er 100 millj. kr. framlag til íþrótta- og æskulýðsfélaga vegna tekjumissis, sem ég tel að séu gríðarlega mikilvægar viðbætur við frumvarpið. Mig langaði aðeins að fá sýn hv. þingmanns á þessi verkefni. Hver er hans sýn á þessi verkefni, á þessar viðbætur meiri hluta fjárlaganefndar við þetta ágæta frumvarp?