152. löggjafarþing — 14. fundur,  21. des. 2021.

fjáraukalög 2021.

174. mál
[17:14]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Jóhann Páll Jóhannsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessi viðbrögð við ræðu minni. Það er auðvitað ómögulegt að vita hvað farið hefur fram á stjórnarheimilinu og við ríkisstjórnarborðið og hvernig það atvikaðist að loks var fallist á að flytja tillögu um þessa eingreiðslu. Ég verð að vera sammála hv. þingmanni um að það er ótrúlegur ósiður og ég held að allir hafi fengið nóg af því að það gerist trekk í trekk að einhver óskýr fyrirheit um heildarendurskoðun einhvern tímann í framtíðinni, á þessu kjörtímabili o.s.frv., séu notuð sem afsökun fyrir því að neita hópum sem eru í viðkvæmri stöðu um kjarabætur hér og nú. Og fyrir vikið gerist ósköp lítið; árin líða bara einhvern veginn án þess að við ráðum bót á þessu kerfi, sem hv. þingmaður er sammála mér um að sé ekki nógu gott og við getum ekki verið nógu stolt af. Eða hefur Íslendingur einhvern tíma farið til útlanda og sagt þegar hann er spurður um íslenskt samfélag: Já, við erum rosalega ánægð með almannatryggingakerfið okkar og hvernig komið er fram við öryrkja, hvernig þeir hafa það, það sýnir styrkleika samfélags okkar hvað við gerum vel þar? Nei, mér hefur alla vega aldrei liðið þannig sjálfum, þótt það sé margt hér á Íslandi sem við getum verið stolt af og fagnað.