152. löggjafarþing — 14. fundur,  21. des. 2021.

fjáraukalög 2021.

174. mál
[17:40]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er alveg sammála. Þetta kallar á ákveðna viðhorfsbreytingu. Það er líka búið að segja við þennan hóp að hann þurfi að bíða eftir leiðréttingu á sínum kjörum, eftir að einhver heildarendurskoðun á örorkulífeyriskerfinu hafi farið fram. Þetta var sagt allt síðasta kjörtímabil, ekki væri hægt að bæta hag öryrkja vegna þess að einhver heildarendurskoðun þyrfti að fara fram, sem virðist samt vera strand. Það má aldrei gera neitt til að bæta hag þessa hóps vegna þess að einhver heildarendurskoðun sé í gangi. Mér líður oft, virðulegi forseti, eins og þetta sé notað til að beygja kjarabaráttu öryrkja í raun niður í duftið. Ef þið sættið ykkur ekki við það sem að ykkur er rétt þá fáið þið ekki neitt og allar kjarabætur bíða þangað til þið eruð búin að samþykkja okkar kröfur um kerfisbreytingar. Svona horfir þetta stundum við mér, að þessari ágætu tillögu, sem okkur tókst að ná samstöðu um núna, undanskilinni. Ég vil auðvitað þakka þeim sem þrýstu á okkur þingmenn og stjórnvöld til að ganga í þetta þjóðþrifaverk, koma með þessa uppbót og auðvitað er mjög ánægjulegt að náðst hafi samstaða um hana. En ég held að stóra ástæðan fyrir þessari tregðu hjá stjórnarmeirihlutanum, ástæðan fyrir því að við erum að klára þetta núna á lokametrunum og að það sé ekki einu sinni víst að þau fái þetta fyrir jól, sé sú að það eigi alltaf að reyna að halda eins mikið og mögulegt er í að það verði að fara í heildarendurskoðun áður en nokkuð sé hægt að laga.