152. löggjafarþing — 14. fundur,  21. des. 2021.

fjáraukalög 2021.

174. mál
[17:42]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Eyjólfur Ármannsson) (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er algert lykilatriði að þessi viðhorfsbreyting eigi sér stað. Viðhorfið byggist á því að það sé svo dýrt að rétta hlut fátækasta hluta samfélagsins, öryrkja og aldraðra sem eru í lægstu tekjuþrepunum. Það er bara rangt viðhorf. Svo erum við rík þjóð og erum eitt ríkasta samfélag heims og viðhorfið er svolítið það að við séum rík af því að hér er fátækt fólk líka. Það er líka kolrangt viðhorf. Ég ætla ekki að fara að greina þetta viðhorf frekar en það er alveg klárt mál að viðhorfsbreyting þarf að eiga sér stað. Þetta er ekki dýrt. Þetta kostar ekki mikla peninga. Eingreiðslan núna sem breytingartillaga Flokks fólksins gerir ráð fyrir er 611 millj. kr. til þriggja hópa í þremur lægstu tekjutíundunum. Það er ekki há fjárhæð í heildarsamhengi fjárlaganna eða íslensks samfélags. Það er í raun ekkert mál að gera þetta. Það er hægt að gera þetta núna fyrir aldraða. Það yrði kannski ekki fyrir Þorláksmessu eða á Þorláksmessu en það yrði í lok ársins. Tryggingastofnun getur brugðist skjótt við og hún er vonandi að gera það núna fyrir öryrkjana.

Varðandi þennan söng og fyrirslátt um heildarendurskoðun tryggingakerfisins þá er ég búinn að heyra það svo oft hér í ræðustól að maður biður eiginlega um að menn hætti með þessa spólu. Þetta er algjör fyrirsláttur. Auðvitað er hægt að gera þetta, það sannar sig núna með eingreiðslu til öryrkja. Það þarf ekki heildarendurskoðun almannatryggingakerfisins til að hún fari í gegn. (Forseti hringir.) Þetta er bara keyrt í gegn og svo er greitt. Nákvæmlega það sama núna varðandi aldraða. Heildarendurskoðun (Forseti hringir.) almannatryggingakerfisins er algjör fyrirsláttur og ég óska eftir því að honum verði bara hætt. Þetta stenst ekki.