152. löggjafarþing — 14. fundur,  21. des. 2021.

fjáraukalög 2021.

174. mál
[18:11]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni svörin. Já, það er spurning hvort við lærum. Ég held að við séum þó smám saman að læra þótt þess hafi ekki séð stað í kosningunum. Hin breiða samstaða, sem er alltaf verið að tala um, hún hefur nefnilega tilhneigingu til að enda í kyrrstöðu, að best sé að gera sem minnst af raunverulegum alvörubreytingum sem hafa varanleg og alvöruáhrif.

Tíminn er nú svo stuttur hérna en af því að hv. þingmaður nefndi í lok ræðu sinnar evruna, sem er einmitt dæmi um að við viljum ekki tala um grundvallaratriði, og kosti og galla krónunnar þá erum við að upplifa núna vaxtahækkunartímabil, við erum að upplifa verðbólgu. Margt af þessu veldur auðvitað miklum búsifjum og það er ekki að sjá t.d. í fjárlagagerðinni að menn séu yfirleitt að taka það með í reikninginn. Þannig að ég tek undir (Forseti hringir.) að ég er ekkert sérlega bjartsýnn.