152. löggjafarþing — 14. fundur,  21. des. 2021.

fjáraukalög 2021.

174. mál
[18:14]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Mig langaði að ræða aðeins við hv. þm. Loga Einarsson um það sem mér finnst vera ákveðið ábyrgðarleysi sem hefur einkennt þessa ríkisstjórn í svolítinn tíma og það er þessi heimatilbúna tímapressa sem við erum alltaf undir hér í þinginu og er alltaf látin bitna á stjórnarandstöðunni og þeim sem síst skyldi. Nú tek ég undir með hv. þingmanni að auðvitað er gott að vera ekki bara neikvæður í ræðum og ég vildi auðvitað gefa hv. þingmanni tækifæri til að vera líka jákvæður í andsvörum. En að sama skapi hlýt ég að koma inn á að meiri hlutinn þráast við í heila viku og vill ekki viðurkenna að til standi að koma með þessa eingreiðslu. Og núna allt í einu á að gera það og þá er allt í einu komin rosaleg tímapressa vegna þess að annars kemur þetta ekki inn fyrir jól. En hvar skyldi ábyrgðin liggja á því að við séum komin í þessa tímaþröng með þetta úrræði? Sumir vildu kannski reyna að beina henni að stjórnarandstöðunni en auðvitað á þessi ábyrgð heima hjá ríkisstjórninni og stjórnarmeirihlutanum sem gat ekki komist að réttri niðurstöðu nógu hratt. Mér finnst það hluti af ákveðnu mynstri eins og það að ákveða að kjósa að hausti. Stór hluti af ástæðunni fyrir því að við erum í þessari tímapressu núna er einfaldlega að tekin var ákvörðun, af því að það hentaði ríkisstjórninni, um að fara í kosningar á haustdögum. Það var mjög þægilegt að hafa ekkert þing að störfum alveg í aðdraganda kosninga og auðvitað best að hanga á valdastólunum eins lengi og mögulegt var, algjörlega burt séð frá því hvað það þýðir fyrir þingið, fyrir gæði fjárlaga, fyrir tímann sem við höfum til að ræða fjáraukann, fyrir tímann sem við höfum til að ræða hvernig þingið, sem fer með fjárveitingavaldið, vill ráðstafa því valdi sínu. Ég vildi því spyrja hv. þingmann: Tekur hann eftir þessu mynstri sem ég er að vísa í?