152. löggjafarþing — 14. fundur,  21. des. 2021.

fjáraukalög 2021.

174. mál
[18:18]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Já, vissulega gat ríkisstjórnin samkvæmt lögum setið í jafnvel mánuð í viðbót en ég held að þetta hafi verið þaulskipulagt vegna þess að ef þau hefðu setið mánuð í viðbót hefðu þau þurft að leggja fram fjárlög. Þau hefðu ekki komist hjá því að leggja fram fjárlög fyrir kosningar og sýna þannig á spilin sem þau voru auðvitað ekki reiðubúin að gera. Við sjáum það t.d. bara með fjármálaáætlun þar sem ráðherrar voru á harðahlaupum undan eigin fjármálaáætlun. Mér er minnisstætt að í þætti á RÚV, sem við hv. þingmaður vorum í saman, hélt hæstv. innviðaráðherra, heitir hann núna, því fram að þetta væri nú bara áætlun og það væri bara ekkert mark á henni takandi. En núna er voða þægilegt að hafa þessa áætlun. Ég held því að þetta skipulagsleysi sé einmitt svolítið skipulagt og það eigi ekki og megi ekki (Forseti hringir.) leyfa skipulagsleysi stjórnarinnar að taka (Forseti hringir.) eða skerða málfrelsi stjórnarandstöðunnar.