152. löggjafarþing — 14. fundur,  21. des. 2021.

fjáraukalög 2021.

174. mál
[18:20]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég hjó líka eftir því að forsvarsmenn ríkisstjórnarflokkanna töluðu mikið um að ekkert væri að marka þessa fjármálaáætlun vegna þess að það væru að koma kosningar og það gerðist eitthvað allt annað eftir þær. Það varð ekki. Lögð voru fram fjárlög sem byggja hreinlega á þessari fjármálaáætlun. Það fannst mér býsna ódýrt hjá þeim. En ég held að það sé ekki til komið vegna þess að einstakir flokkar í ríkisstjórninni hafi ekki vilja til að hrinda góðum hlutum í framkvæmd. Ég held að það snúist einfaldlega um það sem ég var að ræða við hv. þm. Jón Steindór Valdimarsson. Hér erum við bara með svo ólíka flokka að þeim líður best þegar ekkert gerist vegna þess að þau geta ekki komið sér saman um afdrifaríkar eða stórar ákvarðanir sem við þurfum á að halda til framtíðar. Verkefni stjórnmála næstu árin er auðvitað að þau vinni saman sem hafa líkastar skoðanir og sitji svo í stjórnarandstöðu sem hafa andstæðar skoðanir.