152. löggjafarþing — 14. fundur,  21. des. 2021.

fjáraukalög 2021.

174. mál
[18:37]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu og voru margir mikilvægir hlutir nefndir þar. Eitt af því sem sló mig svolítið var umræðan um aðgerðir, Covid-aðgerðir, og hversu lítið hefur í rauninni verið gert til að styðja fólkið sjálft og þá sérstaklega þá sem búa við hvað verstu skilyrðin, öryrkja og eldra fólk. Í því sambandi langar mig að spyrja hv. þingmann. Nú er talað svolítið um það að við séum jafnvel að fara inn í nýjan faraldur með ómíkron-afbrigðinu og við séum jafnvel að fara að takast á við enn meiri bylgjur en við höfum þurft að takast á við hingað til. Þá er kjörið tækifæri, myndi maður halda, fyrir ríkisstjórnina að koma með nýjar aðgerðir fyrir næsta ár, segjum sem svo að við séum undir Covid allt næsta ár. Nú ættu þeir að gera einhverjar aðgerðir fyrir þá sem verst standa. Þá er ég ekki að tala um fyrirtækin heldur einstaklingana. Hvað myndi hv. þingmaður ráðleggja ríkisstjórninni í þeim efnum?