152. löggjafarþing — 14. fundur,  21. des. 2021.

fjáraukalög 2021.

174. mál
[18:43]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið og ég get ekki annað en verið innilega sammála honum. Ef honum finnst þetta flókið þá eru fjárlögin ekki skárri. Þau eru upp á 600–700 bls. og ég skal bara alveg viðurkenna að þau eru ein leiðinlegasta lesning sem ég hef nokkru sinni komist í tæri við, það verður bara að segjast eins og er, af því hvernig þetta er uppsett. Ég held að að þetta sé gert af gömlum vana. Það er reynt að flækja hlutina. Það er reynt að hafa þetta eins ógagnsætt og hægt er. Það er reynt að láta ekki allt koma upp á yfirborðið. Og þá spyr maður sig: Hvers vegna? Hvað er verið að fela? Það er eina niðurstaðan sem kemur út úr þessu; það hlýtur að vera að verið sé að fela eitthvað fyrst þeir hafa þetta svona, vegna þess að það ætti að vera miklu auðveldara að hafa allt uppi á yfirborðinu. Hitt hlýtur að töluvert flókið, að reyna að koma þessu svona fyrir.