152. löggjafarþing — 14. fundur,  21. des. 2021.

fjáraukalög 2021.

174. mál
[18:54]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur fyrir frábærar spurningar. Þegar kemur að þessum búsetuúrræðum og því sem þar er í gangi erum við svolítið föst í kassa og höfum verið það lengi. Ég held að ástæðan sé sú að við höfum ekki tekið þessa umræðu almennilega og farið hreinlega almennilega í að leysa málin. Jú, NPA er gott mál og það er örugglega hægt að finna önnur úrræði. Þá er bara spurning um þá einstaklinga sem vilja annað, þeir hafa örugglega hugmynd um einhver önnur úrræði en NPA, sumum hentar það úrræði kannski ekki heldur og vilja bara hafa eitthvað annað. Þetta er auðvitað það sem við þurfum að fara út í.

Jú, Covid er rosalega dýrt, það hefur kostað okkur 23 milljarða. En hvar eigum við að fá peninga? Við erum í þeirri stöðu núna að við höfum t.d. lækkað bankaskatt og það er skattur á útgerð og annað sem væri hægt að nýta. En á sama tíma þá myndi ég segja að við gætum fundið peninga. Við setjum kannski 500–600 millj. kr. í það að breyta ráðuneyti, eins og við erum að gera núna, í það að búa til önnur ráðuneyti, við setjum 440 eða 460 millj. kr. í RÚV og 400 milljónir í einkarekna fjölmiðla. Það eru alls staðar svona peningar sem ég myndi segja að væri algjör óþarfi að setja þangað. Við gætum nýtt þá miklu betur með því að hjálpa þeim einstaklingum sem eru í skelfilegri aðstöðu og sem við eigum að gera eitthvað fyrir.