152. löggjafarþing — 14. fundur,  21. des. 2021.

fjáraukalög 2021.

174. mál
[18:58]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Forseti. Við ræðum hér frumvarp til fjáraukalaga. Af því tilefni er hægt að hafa margvísleg orð og ég ætla að fara yfir nokkur atriði í þessu samhengi. Fyrst er rétt að við rifjum það upp hvernig fjármál ríkisins eru skipulögð. Þau eru skipulögð með þeim hætti að við erum með fjármálastefnu, síðan erum við með fjárlögin og við erum með fjáraukalögin og þetta á allt saman að tala saman. Lykilatriði í þessu er líka fjármálaáætlun til fimm ára í senn. En fyrirkomulagið um fjáraukalög er þannig hugsað að verið er að koma til móts við útgjöld sem fallið hafa til og eru ófyrirséð og óvænt og verður að bregðast við. Þá er gripið til þess ráðs að samþykkja sérstök lög um það. Það hefur verið plagsiður um árabil að misnota þessa aðferð. Hins vegar koma auðvitað upp óvænt atvik sem þarf að bregðast við og ég held að það sé óhætt að segja að Covid-faraldurinn sé dæmi um slíkt. Enda var það þannig þegar sá faraldur hófst hér og enginn vissi í rauninni við hverju var að búast að þáverandi sitjandi ríkisstjórn, sem er að mestu leyti núverandi, var nokkur vandi á höndum. Hvernig átti að bregðast við? Enginn vissi nákvæmlega hvaða áhrif þetta hefði, hvaða tíma þetta myndi taka eða hvaða úrræða þyrfti að grípa til. Á þeim tíma var það algerlega ljóst að stjórnarandstaðan lagði sig í líma við að greiða götu þessara mála.

Nú er staðan sú að við erum komin með allnokkra reynslu af þessum faraldri, því miður, þeim úrræðum sem grípa þarf til og vitum hvaða afleiðingar faraldurinn kann að hafa. Nú er rúmur helmingur þess sem lagt er til í þessum fjárauka vegna Covid, en það er bara u.þ.b. rúmur helmingur. Ég held að mér sé óhætt að fullyrða að það hafi ekki mætt neinni mótspyrnu og það hefur ekki verið tafið fyrir því á nokkurn einasta hátt að gripið hafi verið til þeirra úrræða þrátt fyrir að stjórnarandstaðan hafi vissulega haft ýmislegt við það að athuga hvernig staðið væri að mismunandi aðgerðum í þessu samhengi. Þannig að það er ekki vandamálið og stjórnarandstaðan hefur ekki lagst gegn mörgum af þessum útgjöldum.

Með þessu fyrirkomulagi fjáraukalaganna er stjórnvöldum, ríkisstjórninni, með vissum hætti falið vald til þess að ákveða nánast ein og sér hvað er óvænt og ófyrirséð. Og það er hægt að nota í óhófi. Það er ekki síður mikilvægt að farið sé mjög vel með það fé sem þannig er ráðstafað. Þetta er hið fyrsta. Það hefur, því miður, eftir því sem liðið hefur á faraldurinn dregið úr vilja stjórnvalda ríkisins til að eiga gott samtal og samstarf við stjórnarandstöðuna um hvernig best sé að standa að málum.

En það er líka ljós í myrkrinu og sérstaklega er það gleðilegt að tekið var undir óskir minni hlutans, stjórnarandstöðunnar, sem er auðvitað rangnefni, stjórnarandstaða. Ég kann ekki við það. Mér finnst að það sé engin sérstök andstaða við stjórnina. Hins vegar er þetta minni hluti og hann veitir stjórninni aðhald. Það er mjög mikilvægt hlutverk að veita ríkisstjórn aðhald. En í öllu falli tókst þannig til, að frumkvæði samstöðu í minni hlutanum, að lögð var mikil áhersla á að auka stuðning við örorkulífeyrisþega og hann mun skipta mjög miklu máli fyrir mjög marga. Það má hrósa meiri hlutanum fyrir að hafa tekið undir það þótt það væri talsvert átak að fá hann til þess.

Það er líka rétt að hafa í huga að ekki er hægt að tala bara um fjáraukann einan og sér heldur verður að setja þetta í samhengi við fjárlagagerðina og hvað menn eru að hugsa til framtíðar um þessi mál. Það hefur skort nokkuð á að framtíðarsýn ríkisstjórnarinnar væri skýr. Það kom skýrt fram í umræðum hér fyrr í dag og kom greinilega í ljós þegar ráðherrar sátu fyrir svörum í óundirbúnum fyrirspurnum að það er togstreita, ég ætla að orða það pent, innan ríkisstjórnarinnar um það hvaða leiðir eigi að fara til að takast á við faraldurinn og mjög greinilegt að mjög margir þingmenn í stjórnarliðinu eru farnir að ókyrrast mjög út af því hvernig takast eigi á við þennan vanda. Það þarf að reyna að hugsa fram í tímann og það hefur mjög mikið verið kallað eftir fyrirsjáanleika í aðgerðum. Því hefur jafnan verið svarað þannig að það sé ekkert fyrirsjáanlegt í þessum efnum. Það er að hluta til rétt, en alls ekki að öllu leyti. Það hefur t.d. legið fyrir lengi að mikilvægt er að heilbrigðisþjónustan, sérstaklega Landspítalinn, bráðaþjónustan, geti annast þá sjúklinga sem þangað leita og það verði að vera þannig að hún muni ekki á sama tíma sinna hefðbundinni læknisþjónustu. Þetta er búið að liggja fyrir lengi.

Það hefur líka legið fyrir, en hefur þó verið stefna, það skal viðurkennt, að passa á upp á heilbrigðiskerfið. Ég held að það sé mjög skynsamleg stefna. En það er ekki gott þegar sú stefna felur í sér að flöskuhálsinn í heilbrigðiskerfinu, sem er bráðaþjónustan og það sem henni tengist, ræður algjörlega ríkjum um það hvað við þolum mikil smit í samfélaginu. Og til þess að bregðast við því — af því að við þolum ekki allt of mörg smit því að þá fyllist spítalinn og ekki er hægt að sinna fólki — þurfum við að fara að grípa til sóttvarnaaðgerða og loka samfélaginu. Við stöndum akkúrat á þeim tímamörkum núna, við erum í þeim sporum. Þetta er búin að vera stefna í tvö ár, allan faraldurinn, að passa upp á heilbrigðisþjónustuna, bráðahluta heilbrigðisþjónustunnar, en það hefur — ég ætla ekki að segja að ekkert hafi verið gert því að það er heldur ekki sanngjarnt, en það hefur alls ekki nóg verið gert til þess að forgangsraða í þágu þessarar forgangsþjónustu, þessarar bráðaþjónustu, þannig að spítalinn geti, þótt ekki væri nema tímabundið meðan við erum að átta okkur á því hvort við horfum hér mörg ár fram í tímann eða hvað, tekið við umtalsvert fleiri sjúklingum en áður og þar með sé hægt að vera í samfélagi þar sem lífið getur gengið mun eðlilegar fyrir sig. Því að auðvitað kostar þetta ekki bara peninga, ég vil ekki bara tala um einhverja peninga og afkomu einhverra fyrirtækja eða halla á ríkissjóði eða hvað það nú kann að vera, sem er gríðarlega mikilvægt viðfangsefni engu að síður. En við erum auðvitað að tala um heilsu fólks og það að fara sífellt inn og út úr einangrun og sóttkví, vinna heima, vinna að heiman o.s.frv., rof í skólahaldi — það hefur svo mikil áhrif sem geta orðið mjög langvarandi. Þess vegna er þeim peningum er ekki illa varið til að reyna að losa um þennan flöskuháls til þess að draga úr þeim miklu samfélagslegu áhrifum sem ella verða. Hér hefur ríkisstjórnin því miður ekki staðið sig sem skyldi. Það verður bara að segja umbúðalaust, nákvæmlega eins og það er.

Þetta er kannski það alvarlegasta í kringum allt þetta. Ég hef grun um að ef fram heldur sem horfir munum við aftur sigla inn í tímabil á sama tíma að ári þar sem við verðum hér að afgreiða fjáraukalög. Reyndar hef ég trú á því að það þurfi að afgreiða fleiri fjáraukalög á næsta ári vegna þess að fyrirhyggjan er ekki næg, planið er ekki nógu skýrt. Hvað sem hæstv. forsætisráðherra vill segja um það þá er það ekki skýrt.

Ég held að skynsamlegt sé að ég hafi þessa ræðu mína ekki mikið lengri, en mér finnst þetta vera bara svo mikið kjarnaatriði í því sem við erum að gera. Fyrirhyggjan, að sjá fyrir hvað gerist eða getur gerst. Það verður að gera meiri kröfur um það til stjórnvalda að menn séu með viðbragðsáætlanir, viðbragðsplön við því. Hér er ég að tala til stjórnvalda. Ég er ekki að tala til heilbrigðiskerfisins og ég er ekki að tala til sóttvarnayfirvalda eða þríeykisins margfræga, sem ég held að hafi unnið mjög gott starf og á miklar þakkir skildar.

En það er þetta með fyrirhyggjuna, og nú ætla ég að venda mínu kvæði örlítið í kross hér í lokin og benda á dæmi um fyrirhyggjuleysi eða að menn virðast ekki hugsa hlutina til enda. Í fjáraukanum er að finna talsverða aukningu á framlagi til endurgreiðslu vegna kvikmyndagerðar. Það er í sjálfu sér fínt. Þetta er útgjaldaliður sem er nokkuð sérstaks eðlis þar sem um er að ræða endurgreiðslu, sem er hlutfall af framleiðslukostnaði við kvikmyndaframleiðsluna. Aukningin í fjáraukanum er upp á 1,5 milljarða. En það er svo skrýtið að það er þrefalt hærra, þetta aukaframlag, en aukningin sem boðuð er í fjárlögum næsta árs. Það er eins og menn geri þá ráð fyrir því að kvikmyndagerðin verði umtalsvert minni á næsta ári en á því síðasta. Það skýtur nokkuð skökku við þegar menn boða mikið átak og hæstv. ráðherra menningarmála hefur þar að auki boðað hækkun á endurgreiðsluhlutfallinu. Þarna finnst mér vera svo skýrt dæmi um að fyrirhyggjan er svo lítil. Ég ætla að endurorða þetta: Fyrirhyggjan er alls ekki nægjanleg og þess vegna lendum við alltaf aftur og aftur í þessum fjáraukaumræðum. Þetta er mjög vont fyrirkomulag og allur agi hverfur. Og því miður erum við að færa okkur nær því ástandi sem var þegar það var sem verst er mjög miður. Ég held að það sé ekkert annað hægt að gera en að hvetja ríkisstjórnina til dáða í þessum efnum og vanda sig mun betur en hingað til.