152. löggjafarþing — 15. fundur,  21. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[21:15]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég vil helst segja að þetta fyrirkomulag, að geta sótt um beint til Alþingis, geta allir nýtt sér, það geta allir sent inn umsagnir eins og við þekkjum og sótt um stuðning Alþingis af því að, eins og hv. þingmanni verður tíðrætt um, fjárveitingavaldið er sannarlega hjá Alþingi. Ég er hins vegar sammála honum um gagnsæi þess sem ráðherra er að gera og við höfum einhvern tíma gert tilraun til þess að óska eftir upplýsingum um hversu marga samninga þáverandi mennta- og menningarmálaráðuneyti var með og reyna að ná eitthvað utan um þetta.

En við megum ekki gleyma því að það sem við erum hér að samþykkja fer í gegnum þennan kanal sem hv. þingmaður ræðir um, þ.e. það eru gerðir samningar um þessar úthlutanir. Þær fara ekki bara sisvona til viðkomandi heldur eru gerðir um það samningar og eftirfylgni á auðvitað að vera með þeim eins og öðru sem ráðuneytið gerir sjálft. Okkur getur greint á um hvort fyrirkomulagið eigi að vera með þessum hætti eða ekki. Ég hef sagt að mér þykir ástæða til þess að hafa þetta með þeim hætti að hægt sé að sækja um beint til Alþingis, vitandi að það fer þarna inn, vegna þess að ég hef ekki endilega talið jafnræði ríkja í því ferli sem viðhaft hefur verið í ráðuneytum. Það er svo eitthvað sem við getum líka reynt að fá fram sem rökstuðning þegar við köllum t.d. eftir upplýsingum um hverjir eru á samningi og öðru slíku til þess einmitt að reyna að átta okkur á því hvort þetta er með þeim hætti.