152. löggjafarþing — 15. fundur,  21. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[21:22]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég ætla nú að byrja á því að taka undir með honum varðandi þetta fyrsta pínulitla skref sem við erum að stíga hér, að taka skerðinguna úr 25% í 11% þannig að upphæðin skili sér sannarlega í vasa þeirra sem í hlut eiga. Það er alltaf það sem við erum að tala um hér varðandi þessar skerðingar í kerfinu. Það er einhvern veginn alveg sama hversu mikið við setjum inn, það skilar sér svo lítið til fólksins. Þetta er sannarlega kerfisbreyting til frambúðar sem skiptir máli í ferlinu eins og kom fram í samtali hv. þingmanns og hæstv. félags- og vinnumálaráðherra hér áðan. Við erum á réttri leið. Við erum að stíga þessi skref og þetta er, eins og komið hefur fram, forgangsmál þannig að við erum vonandi ekki að tala um að þetta sé eitthvað langt inn í kjörtímabilið.

Varðandi eldra fólkið þá kom það líka fram hér áðan að eldri borgarar eru sannarlega að biðja um meiri hækkun en gert er ráð fyrir. Það hefur líka verið ágreiningur, eins og við þekkjum, um útfærslu á 69. gr. laga um almannatryggingarnar. Ég er kannski ekki sú sem sker úr um það hvers vegna sá ágreiningur er fyrir hendi eða öllu heldur af hverju við höfum ekki náð niðurstöðu í því. En þetta er sem sagt niðurstaðan út frá túlkun fjármálaráðuneytisins á þeirri grein.

Ég rifja líka aftur upp að sem betur fer tókst okkur að gera mjög góða kerfisbreytingu fyrir eldra fólk árið 2017 og við höfum haldið því áfram. Þarna er, eins og komið hefur fram, hópur fólks sem á um sárt að binda og það er mjög mikilvægt og langbest ef við getum mögulega tekið þær tekjutíundir sem þar eru undir og styrkt þær sérstaklega. En áfram segi ég í því samhengi að peningarnir sem við erum að setja í þetta verða að skila sér, eins og við sjáum hér með eina prósentið og þessa breytingu, að það skilar sér.