152. löggjafarþing — 15. fundur,  21. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[21:57]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að þessi umræða kemur mér töluvert mikið á óvart. Það hefur legið fyrir frá því að þing kom saman að okkar biði risavaxið verkefni, að koma saman fjárlögum, fjáraukalögum, tekjubandormum o.s.frv. Það hefur reyndar gengið alveg ótrúlega vel. Nú erum við nýbúin að ljúka fjáraukalögum á mettíma og við stöndum hérna 21. desember og erum í miðju verki við að koma af stað 2. umr. og hefja hana og klukkan var hér rétt orðin níu að kvöldi sem er nú bara mjög hefðbundinn tími. Ég er vanur því á löngum þingferli að þessir dagar geta reynst gríðarlega annasamir fyrir þingið. En nú ber svo við að við erum með örfá mál, venjulega erum við með tugi, jafnvel 100 mál á dagskrá. En það er of mikið fyrir stjórnarandstöðuna að vera hérna fram á kvöld, sömu stjórnarandstöðu og hefur talað fyrir því að hún sé nýbúin að fá jólabónusinn sinn og þá verði menn bara að komast heim þegar klukkan er orðin níu. Ég held að þjóðin eigi annað og betra skilið. Það er ótrúlegt að horfa upp á nýja þingmenn koma spræka inn á þing og gefast bara upp þegar klukkan er orðin níu við þau örfáu mál sem eru á dagskrá.