152. löggjafarþing — 15. fundur,  21. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[22:51]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P):

Forseti. Ég bað um að fjármálaráðherra og forsætisráðherra myndu bregðast við því sem ég hef að segja hérna og ég ætla að byrja á því. Það er nefnilega eitt sem við urðum vör við í fjárlagavinnunni, nokkuð sem maður hefur tekið eftir áður í fjárlagavinnunni, en það var einhvern veginn skýrara núna, kannski af því að það var styttri tími til vinnslu. Það er að fjármálaráðuneytið ræður því einfaldlega hvað hin ráðuneytin fá í fjárheimildir. Ég velti fyrir mér hvort fólk átti sig á því hvað þetta þýðir og af hverju þetta er í rauninni alvarlegt. Við erum ekki með það sem kallast fjölskipað stjórnvald, þ.e. ekki bera allir ráðherrar saman ábyrgð á öllu heldur ber hver ráðherra ábyrgð á sínum málaflokki og þeim verkefnum sem eru undir þeim málaflokki. Hann ber ábyrgð á hluta íslenskra laga, t.d. ber hæstv. félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra ábyrgð á lögum um almannatryggingar, að verið sé að fylgja þeim. Hann leggur til alls konar verkefni, hugmyndir og framkvæmd á því hvernig á að standa við þau lög. Til þess þarf hæstv. ráðherra fjárheimildir til að uppfylla þau réttindi fólks sem þar standa og eru þar veitt, sem Alþingi samþykkti að skyldu vera réttindi fólks. Þetta á ráðherra að útfæra og standa við. Til þess þarf hann fjárheimildir. En þá skýtur það skökku við að fjármálaráðherra, fjármálaráðuneytið, geti bara skammtað þær, reiknað eftir eigin hentugleika hvaða upphæðum hæstv. félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra hefur úr að spila til að geta staðið við sinn málaflokk. Það er það sem er skrýtið við þetta.

Þess vegna vildi ég ræða aðeins við hæstv. fjármálaráðherra um þetta ægivald hans yfir fjárheimildum allra ráðuneyta, og við forsætisráðherra um þetta fjölskipaða stjórnvald eða ekki fjölskipaða stjórnvald. Hvernig gengur þetta í alvörunni, hvernig virkar þetta í alvörunni? Það getur ekki verið svo að einn af ráðherrunum stjórni því hvað allir hinir hafa til að uppfylla þau skilyrði sem þeir þurfa að standast til þess að geta framkvæmt þau lög sem þeir bera ábyrgð á. Það hlýtur að vera hvers og eins ráðherra að vega og meta hvað þarf til að uppfylla þær kröfur sem eru settar í stjórnarskrá og með lögum hérna á þingi. Þess vegna leggja ráðuneytin fram frumvörp sem eru kostnaðarmetin. Við gerum ráð fyrir því að þessi lagabreyting kosti þetta og hitt af því að við erum að bæta við þjónustu eða draga úr þjónustu eða gera hana skilvirkari eða eitthvað því um líkt, þannig að hún kosti minni pening, hver veit. Það er fullt af möguleikum. Ein af breytingartillögum minni hlutans fjallar t.d. um sálfræðiþjónustu. Það er metið sem svo að hún kosti 900 milljónir, því að þó að Alþingi hafi samþykkt þetta sem lög — NPA-samningarnir eru svona líka — þá hefur fjármálaráðherra ekki ákveðið að láta fjárheimild til fagráðherra til að uppfylla þessi lög. Eftir stendur þá bara fagráðherra sem þarf að uppfylla kröfur og skilyrði um þau réttindi sem fólk hefur þegar það sækir þjónustu sálfræðings, þetta er eitt af líffærunum eins og hjarta og annað og það er borgað fyrir það. En fjármálaráðherra sleppir því einfaldlega að veita fjárheimild í þennan málaflokk. Eftir sitjum við og spyrjum: Vorum við ekki að samþykkja lög um að það ætti að gera þetta? Hvar er fjárheimildin fyrir þessu? Hana er hvergi að finna. Þá þarf minni hlutinn að leggja fram breytingartillögu um það: Fyrirgefið, en þið gleymduð þessu. Úps, æ, æ.

Kosningar í september eru hræðileg hugmynd þegar afgreiða á fjárlög fyrir áramót. Auðvitað hjálpar það ekki þegar framkvæmd kosninga klúðrast, en að ríkisstjórn fyrra kjörtímabils taki sér tvo mánuði í að hnoða saman nýjum stjórnarsáttmála og leggi ekki fram fjárlagafrumvarp, sem var tilbúið fyrir kosningar, fyrr en í byrjun desember er á engan hátt ábyrgt. Ég vil taka það fram að fjárlagafrumvarpið var tilbúið fyrir ríkisstjórn fyrir kosningar. Þetta var mjög skýrt í vor þegar við vorum að tala um fjárlög í haust og kosningar og þess háttar. Ráðuneytið sagði við okkur: Fjárlagafrumvarp verður tilbúið til þess að ríkisstjórn geti, strax og kosningum lýkur, sett sitt mark á það. En fjárlagafrumvarp kemur ekki fram fyrr en í byrjun desember. Það er á engan hátt ábyrgt af ríkisstjórninni að gera þetta. Það sem kemur ekki á óvart er að núverandi ríkisstjórn virðist vera algjörlega sama um hlutverk þingsins. Þau taka sér bara fjárveitingavaldið, sem er þingsins, með gríðarlega óaðgengilegu og ógagnsæju fjárlagafrumvarpi, þau smána löggjafarþingið með því að gefa því lítinn sem engan tíma fyrir hin ýmsu frumvörp sem snúa að fjárlögum og öðrum tímasetningarmálum. Afgreiðsla mála í nefndum er að langmestu leyti afplánun þangað til ríkisstjórnin er búin að púsla öllu saman sem hún gleymdi að gera þessa tvo mánuði sem hún var að hnoða saman stjórnarsáttmála. Og hvernig er farið með eftirlitsvaldið? Ja, það er mun flóknara.

Ástæðan fyrir þessu öllu er einfaldlega sú að ríkisstjórnarflokkarnir virðast ekki kunna að fara með eða ekki vita hvernig vald virkar, hvernig aðskilnaður ríkisvaldsins virkar. Við höfum til að byrja með, þingbundið lýðræði samkvæmt stjórnarskrá. Þess vegna erum við með þingkosningar en ekki ráðherrakosningar eða dómarakosningar, ekki eins og í Bandaríkjunum þar sem framkvæmdarvaldið er kosið beint í forsetakosningum. Af því að við erum með þingbundið lýðræði þá þýðir það að ráðherrar eru í raun fulltrúar þingsins í framkvæmdarvaldinu en ekki valdhafar. Ráðherrar bera vissulega ábyrgð, en það þýðir ekki að því fylgi völd. Í stjórnarskránni er þetta orðað svo: „Ráðherrar bera ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum. Ráðherraábyrgð er ákveðin með lögum“.

Hér er rétt að taka fram að ég er að fjalla um hvernig ráðherrar ættu að fara með framkvæmdarvaldið, ekki hvernig þeir eru búnir að fara með, af því að það er einfaldlega rangt að mínu mati, ekki hvernig það hefur verið túlkað samkvæmt hefð á undanförnum árum og áratugum. Hér er einfaldlega bent á að það er ekki ráðherrans að beita framkvæmdarvaldi samkvæmt eigin geðþótta.

Hvernig ætti fyrirkomulagið að vera? Ef gengið er út frá því að við séum þingbundið lýðræði þýðir það að þungamiðja pólitískrar ákvarðanatöku er hjá þinginu. Það þýðir að ráðherrar eru einungis fulltrúar þingsins í faglegri stjórnsýslu. Framkvæmdarvald ráðherra snýst um að fylgjast með því að fagleg stjórnsýsla fylgi þeirri stefnu sem þingið setur og að það sé gert lögum samkvæmt. Ákvarðanir ráðherra snúast um að votta að stjórnsýslan hafi fylgt öllum kúnstarinnar reglum sem þingið setur með lögum til þess að takmarka mörk framkvæmdarvaldsins. Framkvæmdarvaldið má nefnilega bara gera það sem lög segja og ekkert sem lög leyfa ekki sérstaklega. Þess vegna skulu ráðningar í embætti vera byggðar á faglegum sjónarmiðum en ekki pólitískum. Þess vegna var Landsréttarmálið t.d. svo alvarlegt.

Ef það væri í alvörunni þannig að þingið væri þungamiðja pólitískrar ákvarðanatöku og ráðherrar væru fulltrúar þingsins í faglegri stjórnsýslu — ég myndi vilja nefna þá njósnara þingsins í rauninni — þá væri framkvæmd eftirlits þingsins með allt öðrum hætti. Eftirlit þingsins snýst um eftirlit með ráðherra og ábyrgð hans. En ábyrgð ráðherra er einmitt vel útskýrð í 6. gr. laga um ráðherraábyrgð, nr. 4/1963:

„Hver ráðherra ber ábyrgð á stjórnarerindum þeim, sem út eru gefin í hans nafni, nema ákvörðun sé án hans atbeina tekin af undirmanni, sem til þess hefur heimild samkvæmt venju, eða eðli máls, eða starfsmaður hafi vanrækt að leggja erindi fyrir ráðherra. Ráðherra verður þó einnig sóttur til ábyrgðar fyrir þvílíkar ákvarðanir, ef honum hefur verið um þær kunnugt og hann hefur látið þær viðgangast án þess að gera viðeigandi ráðstafanir til að koma í veg fyrir þær.“

Þetta þýðir ekki að ráðherra taki sjálfur ákvörðun heldur að ákvörðun hans sé faglega framkvæmd. Hér er rétt að gera greinarmun á pólitískri ákvörðun og geðþóttaákvörðun ráðherra. Séu mál faglega undirbúin getur oft verið fleiri en einn möguleiki á úrlausn mála. Fyrir því geta verið einfaldar ástæður þar sem matskenndir þættir eru oft mótsagnakenndir. Á úrlausn máls t.d. að gæta að friðhelgi eða gagnsæi? Vega byggðasjónarmið meira en skilvirkni? Eru umhverfissjónarmið mikilvægari en orkuöryggi eða öfugt?

Fagleg stjórnsýsla býður ráðherra upp á greiningu á þeim þáttum sem skipta máli í hvert sinn. Sú greining gerir ekki upp á milli andstæðra sjónarmiða heldur rökstyður kosti og galla hvers sjónarmiðs sem er í boði. Þegar ráðherra velur úr slíkum kostum er ákvörðun ráðherra pólitísk. Það er pólitík að velja orkuöryggi umfram umhverfissjónarmið, eða öfugt, sem dæmi. Slík ákvörðun getur krafist þess að ráðherra axli pólitíska ábyrgð. Þegar ráðherra fer hins vegar gegn þeim valkostum sem fagleg greining byggist á er um geðþóttaákvörðun að ræða. Augljósasta dæmi slíkra ákvarðana eru ákvarðanir fyrrverandi dómsmálaráðherra í Landsréttarmálinu eða fyrrverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í Samherjamálinu.

Aðalatriðið er að ef ráðherrar eru fulltrúar þingsins í faglegri stjórnsýslu þá eru þeir í raun eftirlitsaðilar fyrir þingið innan framkvæmdarvaldsins. Ráðherrar taka vissulega pólitískar ákvarðanir en þær eru allar byggðar á aðgengilegri faglegri greiningu sem ráðherra á að hlakka til þess að greina þinginu frá, hlakka til þess að koma og gera grein fyrir þeim faglegu valkostum sem eru í boði. Lög um opinber fjármál snúast um þetta frá A til Ö, um valkostagreiningu, forgangsröðun og gegnsæi, eins og segir í grunngildunum. Þau snúast um kostnaðargreiningu og um ábatagreiningu. Þetta snýst allt um fagleg vinnubrögð. Ráðherra ætti miklu oftar að hlakka til að koma til þingsins til að segja frá því sem stjórnsýslan er að gera. Þannig væri ráðherra að leita svara vegna eftirlits þingsins gagnvart störfum ráðherra í stað þess að reyna að forðast eftirlitið, vegna þess að eftirlit þingsins snýst ekki um pólitískar ákvarðanir ráðherra heldur hvort faglega hafi verið að þeim staðið. Sá ráðherra sem beitir geðþóttavaldi, hins vegar, ætti að hræðast þingið mjög mikið. Það er ástæða fyrir því að við erum með lög um vernd uppljóstrara. Brjóti ráðherra á hinu faglega ferli ætti að hlakka í stjórnsýslunni að tilkynna þinginu um slíkt. Þannig skapast jafnvægi sem núverandi fyrirkomulag ráðherraræðis setur verulega úr skorðum, af því að meiri hluti þingsins eftirlætur allt vald til ráðherra sinna og ver svo geðþóttavald þeirra fyrir öllu eftirliti.

Núverandi fyrirkomulag er afurð margra áratuga gamalla hefða og venja. Það er fyrirkomulag hentisemi frekar en nokkurs annars. Sú hentisemi hefur fært okkur frá því hvernig ríkisvaldið ætti að starfa, yfir í „hentugra“ fyrirkomulag fyrir ráðamenn. Ekkert á hins vegar að vera hentugt fyrir valdhafa, ekki neitt. Þau sem fara með völd eiga alltaf að þurfa að hafa mjög mikið fyrir því að beita valdi, vegna þess að vald spillir. Stór hluti af ástæðunni fyrir því að við höfum haft mikið fyrir því að ná valdi af einráðum, sem beita valdi eftir mjög miklum hentugleika, er að við vitum að skaðinn af slíku fyrirkomulagi er gríðarlegur. Mannkynssagan er troðfull af slíkum dæmum. Á sama tíma er mannkynssagan með jafn margar sögur um hvernig slíkir valdníðingar komust til valda.

Vítin eru þarna til þess að varast þau og oft má kenna afskiptaleysi um, afskiptaleysi sem lýsir sér í þeirri meðvirkni að „mitt fólk“ geti nú ekki gert svona og að gagnrýni sé bara pólitískt prjál. Þannig hljómar vörn þeirra sem hagnast af geðþóttanum ítrekað. Ef hin gagnrýniverða ákvörðun ráðherra var bara pólitísk en ekki byggð á geðþótta, er ekkert að óttast. Þá þarf bara að standast traust eigin stuðningsmanna og mögulega afleiðingar samkvæmt almennum kosningum. Þess vegna hentar svo vel að útmála alla gagnrýni sem pólitíska en ekki málefnalega. Þannig sleppa þau sem fara illa með vald.

Það er erfitt að vinna faglega. Það kostar orku og pening. Það kostar tíma. Það er sérstaklega erfitt í fordæmalausum aðstæðum og mikilli óvissu. En það er einmitt erfitt af því að einfalda leiðin er skaðleg. Við vitum það. Það er ekki auðvelt að birgja alla brunna áður en börnin detta í þá. Það er erfitt að sjá fyrir mistök og slys geta gerst. Það getur komið fyrir alla að botninn verði eftir suður í Borgarfirði. Þeir sem reyna að gera hlutina vel og vandlega verða hins vegar síður fyrir því. Ég segi þetta einmitt með öllum þeim tilvísunum í lög um opinber fjármál sem ég hef fjallað um ítrekað á undanförnu kjörtímabili í allt of mörgum nefndarálitum án þess að nokkuð hafi gerst hvað það varðar.

Ég vil vekja athygli á styrkveitingum fjárlaganefndar sem ég tel vera tímaskekkju, gríðarlega tímaskekkju. Í nefndaráliti mínu er listi af verkefnum sem meiri hluti fjárlaganefndar ákveður að styrkja og verkefnum sem hann ákveður að styrkja ekki. Meiri hluti fjárlaganefndar gerir tillögur um styrki til 43 mismunandi aðila eða verkefna og alls bárust fjárlaganefnd 41 umsókn um styrki frá aðilum, sem ég tel upp í álitinu. Það er merkilegt að það eru aðeins fleiri styrkir sem meiri hlutinn ákveður að veita. Ástæðan fyrir því er smá yfirsjón eins og t.d. skortur á fjármagni fyrir NPA-samningana þar sem ríkisstjórnin bætti við 220 milljónum en ekki 320, eins og hefði átt að gera. Ráðuneytið vissi ekkert, hélt að 220 milljónir væru alveg nóg en meira að segja 100 milljónir í viðbót við það er ekki nóg heldur. Svo eru ýmis önnur verkefni hérna eins og björgunarbátar, viðhald, annar björgunarbátur og eitthvað svoleiðis og sóknaráætlanir sem ekki var sérstaklega sótt um svo ég hafi séð og þess háttar.

Í 42. gr. laga um opinber fjármál er fjallað um styrkveitingar. Þar er heimild fyrir ráðherra til þess að veita tilfallandi styrki og framlög til einstakra verkefna í þeim málaflokkum sem ráðherra ber ábyrgð á. Þetta vísar aftur til upphafsorða minna um það að ráðherra ber ábyrgð á sínum málaflokki og væntanlega þá sínum fjárheimildum sem fjármálaráðuneytið virðist bara skaffa honum, þetta er svona vasapeningur: Gjörðu svo vel. Þú færð svona mikinn vasapening til að gera allt sem þú berð ábyrgð á. Okkur er alveg sama hvað það kostar, þú færð bara þennan pening, hvorki meira né minna. Engin kostnaðargreining, ekki neitt. Samkvæmt heimildinni í 42. gr. á ráðherra sérstaklega að gæta að jafnræði, hlutlægni, gagnsæi og samkeppni og gera grein fyrir útgjöldum vegna slíkra styrkja í fylgiriti með frumvarpi til fjárlaga. Þar eru styrkirnir skilgreindir á þann hátt að framlög samkvæmt þeim skulu „háð skilyrðum um fullnægjandi skýrslugjöf um framvindu verkefna og reikningsskil“.

Þegar um er að ræða slíka styrki sem meiri hluti fjárlaganefndar veitir eru engar slíkar reglur eða kvaðir gagnvart þeim sem fá slíka styrki. Eins og kom fram í andsvörum við hv. formann fjárlaganefndar þá fara þessir styrkir inn í það ferli sem ráðuneytin og ráðherra sér um, en gagnsæið og jafnræðið sem á að ríkja er ekkert. Það er ekkert umsóknareyðublað eða umsóknarferli. Það er enginn stór takki á vefsíðu þingsins þar sem stendur: „Sæktu um styrk til fjárlaganefndar“. Það veit enginn að það er hægt að sækja um styrk nema þeir sem þingmenn segja kannski að senda inn beiðni. Á síðasta kjörtímabili var reynt að koma upp því verklagi sem lýst er í lögum um opinber fjármál, að þegar það kæmi styrkbeiðni væri sagt: Nei, fjárlaganefnd tekur ekki við svona styrkbeiðnum. Það er ráðherra sem tekur við þeim. Vinsamlegast talið við ráðherra. Styrkbeiðnin er beinlínis send áfram til ráðuneytis. Núna er allt í einu ákveðið, án þess að láta kóng eða prest vita, að fjárlaganefnd taki við svona styrkbeiðnum. Það kom mér rosalega á óvart. En þegar ég pæli aðeins betur í því þá hefði ég átt að giska á það fyrir fram miðað við fyrirkomulag nefndarinnar. Með þessu fyrirkomulagi er meiri hluti fjárlaganefndar einfaldlega að lýsa yfir vantrausti á ráðherra til þess að fara með þær fjárheimildir sem þingið samþykkir. Það er ekkert jafnræði. Það er engin hlutlægni. Það er ekkert gagnsæi, eins og sést greinilega í áliti meiri hluta þar sem ekki er ítarlega gerð grein fyrir því um hvaða fjárheimildir er að ræða. Það þýðir óútskýrð aukafjárheimild í málaflokki ráðherra. Afleiðingin af því er þá sú að ráðherra fær einfaldlega bara auknar fjárheimildir án þess að vita í raun í hvað þær fjárheimildir eiga að fara. Það þýðir að ráðherra getur notað þær fjárheimildir í verkefni innan hvers málaflokks eins og honum sýnist, en ekki samkvæmt þeim lista sem meiri hluti fjárlaganefndar sýndi í fjárlaganefnd, í hvað þessar fjárheimildir ættu að fara. Það er einfaldlega ekkert aðgengilegt í nefndaráliti meiri hlutans. Kannski er svo flókið að finna það, ég finn það alla vega ekki. Ég get alveg borið við blindu, það getur vel verið að ég sé alveg rosalega blindur á þetta, en þetta er ekki aðgengilegt þegar allt kemur til alls. Við höfum alveg upplifað það áður að það hefur vantað útskýringar á fjárheimild sem þingið samþykkti og ráðherra gerði bara eitthvað annað við peninginn. Það eru fordæmi fyrir því, það gerðist á síðasta kjörtímabili.

Ef meiri hluti fjárlaganefndar vill endilega veita styrki til einstakra verkefna út um allt land, eins og ráðherra er heimilt samkvæmt lögum um opinber fjármál, verður nefndin að gefa út skýrar reglur um hvernig er sótt um og hvernig á að gera grein fyrir notkun þeirra fjárheimilda. Það er alveg skýrt að þingið getur veitt svona styrki, enda er þingið með fjárveitingavaldið. Við skulum hafa það í huga. Það þarf bara að gera það rétt ef á að gera slíkt yfirleitt. Það er nefnilega ekki alltaf þannig að það þurfi að gera það sem má gera. Það er ekki nauðsynlegt. Það er hægt að beina þessu í faglega ferlið, eins og lög um opinber fjármál kveða á um. Ég gagnrýni þessar ákvarðanir meiri hlutans harðlega. Hversu góð sem þessi verkefni eru þá eru þetta óásættanleg vinnubrögð.

Mig langar að nefna örstutt hérna eina af lagfæringum meiri hlutans, sem er annað en styrkveiting, vegna NPA-samninganna. Samningar um notendastýrða persónulega aðstoð eru veittir samkvæmt lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði þeirra laga veitir ríkissjóður mótframlag til sveitarfélaga vegna þessara samninga sem skulu vera á árinu 2018 allt að 80 samningar og síðan fer fjöldinn stigvaxandi til ársins 2022, 172 samningar. Lögin eru rosalega skýr um þetta, þetta margir samningar eiga að vera í boði. En hvað gerist í framkvæmd? Þingið samþykkir fjárheimild til þess að fjármagna þennan fjölda samninga, eða réttara sagt segir ráðuneytið við þingið að þessi fjöldi samninga kosti bara þetta mikið: Gjörið svo vel, samþykkið þetta. Almennt séð ættum við að treysta þeim útreikningum nema hvað að reynslan sýnir að við eigum ekki að treysta þeim af því að það hefur ítrekað vantað upp á, ítrekað verið færri samningar gerðir en lögin kveða á um að ríkið eigi að greiða framlag með. Sveitarfélögin hafa verið rosalega skýr með þetta. Það eru biðlistar um þessa samninga og sveitarfélögin eru tilbúin til að fjármagna þá en þau fá ekki mótframlag frá ríkinu og geta þar af leiðandi ekki fjármagnað samninginn í heild sinni.

Í mörgum öðrum verkefnum hins opinbera, ég nefndi Hefjum störf og ýmislegt varðandi rekstur heilbrigðiskerfisins, samþykkir þingið fjárheimildir. Þingið samþykkir t.d. fjárheimild fyrir lyfjakaupum samkvæmt því mati sem heilbrigðisráðuneytið gerir, eða réttara sagt fjármálaráðuneytið ákveður þegar allt kemur til alls að þetta verði fjárheimildin til að kaupa lyf. En það hefur ítrekað verið vanmat. Og hvað gerist? Það er ekki hætt að kaupa lyf bara í október af því að fjárheimildin er búin, það er haldið áfram að kaupa lyf út árið og svo er komið með fjáraukalagafrumvarp í lok ársins fyrir aukaupphæðinni sem lyfin kostuðu í október, nóvember, desember, eða eitthvað svoleiðis. Allt í lagi. Ég skil það, að sjálfsögðu myndi þingið samþykkja eitthvað slíkt, en hluti af þessu er að það á að koma með þetta til þingsins fyrir fram, að það þurfi aukafjármagn út árið til að kaupa lyfin. Við sjáum muninn einmitt miðað við NPA-samninga. Þarna er skýrt kveðið á um 172 samninga. Gjörið svo vel, hér er fjárheimildin til að dekka þá. En þegar fjárheimildin í þessum málaflokki klárast þá er ekki klárað að semja um það marga samninga, 172 samninga, ég held að þeir séu tæplega 100, sem gert er ráð fyrir á næsta ári. Þeir aukasamningar sem lögin kveða samt á um að ríkið eigi að greiða með eru ekki fjármagnaðir og það er ekki komið í lok árs og sagt: Heyrðu, þessir samningar kostuðu meira en við áætluðum. Við fjármögnuðum þá samt að sjálfsögðu af því að það er í lögum þannig að við þurfum aukafjárheimild fyrir því. Það er ekki gert heldur er því bara sleppt að fjármagna þá alveg út árið. Það er rosalega skrýtið.

Ég velti því fyrir mér og langar að spyrja hæstv. ráðherra um þetta atriði: Hver ákveður hvort það eigi að halda áfram að sinna þessum verkefnum, að kaupa lyf þrátt fyrir að fjárheimildin sé búin? Hver ákveður að hætta að fjármagna NPA-samninga? Hver ákveður hvort á að gera; að hætta að fjármagna þá eða halda því áfram? Ég átta mig ekki á því. Þingið samþykkti verkefnið Hefjum störf fyrir 4,3 milljarða. Það áttu að vera sumarstörf fyrir nemendur og eitthvað fleira. Sú fjárheimild passar nokkurn veginn. Maður reiknar 7.000 sinnum 300.000 kr., það dugar í tvo, þrjá mánuði, það fer eftir hversu háar atvinnuleysisbætur viðkomandi er með. Það dugar yfir sumarið. Frábært. En svo er allt í einu ákveðið að halda þessu verkefni áfram án þess að spyrja þingið. Það er 6,1 milljarður í viðbót í fjárheimildir og 3,4 milljarðar í viðbót í fjárlögum fyrir árið 2022 einhverra hluta vegna. Af hverju var ekki ákveðið að hætta þessu alveg, eins og með NPA-samningana, þegar fjárheimildin var búin? Hver ákveður það? Hver ræður því? Hver ræður því að fjármagna ekki fleiri NPA-samninga? Það hlýtur að vera ráðherra sem ber ábyrgð á því. Er það pólitísk ákvörðun byggð á faglegri stjórnsýslu eða er það geðþóttaákvörðun? Ég sé ekkert sem liggur fyrir framan mig um það hvernig á að taka þá ákvörðun. Það er ákvæði í stjórnarskrá um að ekki skuli greiða neitt nema fjárheimild sé til fyrir því í fjárlögum eða fjáraukalögum. Ef það er ákvæðið sem er notað sem rök fyrir þessu þá á að sjálfsögðu ekki að halda áfram að borga fyrir verkefnið Hefjum störf eða borga fleiri lyf nema það sé komið og sagt: Okkur vantar aukafjárheimild. En það er ekki gert — nema stundum. Það er rosalega skrýtið.

Það verður að spyrja hver ber ábyrgð á þessu því að þolendur vegna þessarar ákvörðunar hljóta að eiga réttmætar væntingar um þessa þjónustu. Hver ætlar að svara þessu? Er það fjármálaráðherra? Er það félagsmálaráðherra með NPA-samningana? Var það félagsmálaráðherra sem ákvað að fjármagna ekki fleiri samninga? Væntanlega ekki því að hann fær ekki að ráða því hvaða fjárheimildir hann fær. Það er fjármálaráðuneytið. Er það stjórnsýslan? Er þetta fagleg ákvörðun? Er þetta vísun í stjórnarskrána? Við megum ekki borga meira, Alþingi ákvað þetta. Ef það er málið, hvað með öll hin málin þar sem það er ekki gert? Hver ætlar að bera ábyrgð á þessu og hvernig ábyrgð er þetta? Er þetta pólitísk ábyrgð? Er þetta misnotkun á valdi?

Breytingartillögur ríkisstjórnarinnar eru áhugaverðar af mörgum ástæðum. Það bætast rúmir 15 milljarðar kr. við, einungis rúmum hálfum mánuði eftir að fjárlagafrumvarpið er lagt fram. Upphæðin er svo lækkuð niður í rúma 13 milljarða kr. með tilfærslu úr varasjóði, eða eins og það er orðað „breytt umfang almenna varasjóðsins — 1.700,0“. Einnig er tilfærsla frá gjaldahlið í sjóðsstreymi úr Kríu upp á 2 milljarða kr. Á móti kemur svo tilfærsla á markaðsleigu fyrir Háskóla Íslands upp á tæpa 2 milljarða kr. Mjög skrýtið allt. Upphæðir á stærðunum breytast, sem þýðir í rauninni að það eru 15 milljarðar í viðbót ef maður „nettar“ þetta aðeins út. Stærsti útgjaldaliðurinn þarna er einmitt Hefjum störf, merkilegt nokk, eins og var í fjáraukalagafrumvarpinu. Ég er svo sem búinn að fara yfir það verkefni, ég ætla ekki að þreyta fólk með því að fara yfir það aftur.

Önnur stærsta talan í breytingartillögum meiri hlutans eru rúmir 1,9 milljarðar kr. til Háskóla Íslands. Það er hins vegar fjármagn sem fer úr einum vasa í annan þar sem er verið að færa til fasteignir í félag sem innheimtir svo markaðsleigu af háskólanum. Þetta eru þá fjárheimildir til þess að vega upp á móti því. Mjög áhugavert. Ég skil alveg þessa tilfærslu í markaðsverð, það er til að vita betur um ákveðinn viðhaldskostnað og að gera upp eins og stofnefnahagsreikningurinn á að vera o.s.frv. Þá finnst mér áhugavert að pæla í kirkjujörðunum, þær eru enn þá mjög skrýtnar. Það kom loksins svar um þær. Það er engin skuldbinding á þeim, sem þýðir að við getum væntanlega sagt upp þeim samningi án þess að skila jörðunum aftur því að það er engin skuldbinding á þeim. Samningurinn er bara sjálfstæður.

Fjórði stærsti útgjaldaliðurinn í tillögum ríkisstjórnarinnar eru endurgreiðslur vegna rannsóknar og þróunar samkvæmt uppfærðri áætlun Rannís. Þetta er liður sem Ríkisendurskoðun hefur vakið athygli á að er varhugaverður vegna möguleika á endurgreiðslum vegna kostnaðar sem ætti ekki að teljast falla undir skilyrði rannsóknar og þróunar. Þetta er einfaldlega liður, eins og Ríkisendurskoðun orðar það svona óbeint í minni túlkun, þar sem er mjög góður möguleiki til að svíkja undan skatti. Ekkert flóknara en það. Ég gagnrýndi á vissan hátt einmitt þennan lið, þegar hann var stækkaður hérna um árið, að þá fór hann langmest til stærstu fyrirtækjanna. 14 stærstu fyrirtækin sem tóku 90% af öllu aukafjármagninu sem var sett í þetta, eitthvað svoleiðis, bara eftir minni. Það hefði verið miklu gagnlegra að mínu mati að nýta þetta fjármagn í grasrótaruppbyggingu, ekki endilega til fyrirtækja sem eru orðin stöndug þó að þau stundi enn þá rannsóknir og þróun, heldur einmitt til þeirra fyrirtækja sem eiga allt undir því að þeirra rannsóknir og þróun gangi upp og þau búi til stöndugt og spennandi verkefni í framtíðinni.

Aðrar athyglisverðar tillögur eru t.d. að ársreikningaskrá verði gerð gjaldfrjáls, sem er samkvæmt frumvarpi Pírata sem ráðherra bætti við í sínar lagabreytingar á síðasta kjörtímabili. Áhugavert er að það hafi gleymst í fjárlagagerðinni. Það er hálfur milljarður króna sem fer í kostnað vegna breytinga á Stjórnarráðinu af því að það þurfti að búa til aukaráðherra og -ráðuneyti til þess að „fella ósýnilega múra stofnanamenningar og stuðla að samvinnu“. Þetta er rosalega skrýtið þegar við erum með fyrirkomulag þar sem hver ráðherra ber ábyrgð á sínum málaflokki, sínum lögum og enginn annar. Er ráðherra ekki með fulla yfirsýn yfir þau mál sem hann ber ábyrgð á? Vissulega hefur verið bent á að sum verkefni ná til margra ráðuneyta en það er stundum af mjög mikilvægri ástæðu, til að samfellan í verkefninu sé ekki á sömu hendi, t.d. að meta umhverfisáhrif og ákveða framkvæmd. Þetta eru tveir pólar sem hafa ekki sama markmið. Ef það er vilji ráðherra að þessi ákveðna framkvæmd skuli vera gerð þá er freistnin til að láta umhverfismatið ekki standa í vegi fyrir henni einfaldlega of mikil. Ég er ekki að segja að hvaða ráðherra sem er falli í þá freistni. En möguleikinn er til staðar að það geti gerst og við eigum að reyna að forðast þannig aðstæður til þess að reyna að halda hlutlægni.

Síðan þarf víst að bæta bændum upp verðhækkun á áburði um 700 millj. kr. Það er áhugavert. Vaxtabótakerfið minnkar svo um 400 millj. kr. til samræmis við raunútgreiðslu bóta, sem er skýrt merki um úreldingu þess kerfis án þess að tekin sé pólitísk ákvörðun um slíkt. Er það pólitísk ákvörðun þegar það er einfaldlega ákveðið að fjármagna það ekki? Á ekki stefnumörkunin að vera hérna á þingi? Þá veltir maður fyrir sér: Myndi það breyta einhverju að setja aukapeninga í þetta? Ég held ekki því að það á eftir að uppfæra öll viðmið, lágmörk o.s.frv. í lögum, þannig að það er ekki víst að það fjármagn myndi duga. Þá er búið að sleppa því að uppfæra samkvæmt verðlagsþróun o.s.frv. til þess að úrelda kerfið einhvern veginn „organískt“, án þess að taka neina ákvörðun um það. Það er mjög spes.

Tillögur meiri hlutans benda skýrt á hversu mikill losaragangur er á fjármálum þessarar ríkisstjórnar. Stórir liðir gleymast eða eru hunsaðir, og skortur á gagnsæi fyrir umsagnaraðila er gríðarlegur. Staða opinberra fjármála, fyrir þing og þjóð, er í verra ástandi núna en hún var fyrir setningu laga um opinber fjármál. Þá voru fjárheimildir einstakra aðila a.m.k. skýrar. Nú veður framkvæmdarvaldið hins vegar yfir fjárveitingavaldið sem á að liggja hjá Alþingi og stjórnarmeirihlutinn leyfir því að gerast.

Það tók kannski einhver eftir kaflaheitunum í nefndarálitinu, ég bendi á þau. Þetta er svona gáta, það er vísbending í nefndarálitinu hverju sú gáta tengist þannig að svarið liggur einhvers staðar í textanum. Næsti kafli heitir einmitt: Vefðu utan um það grænum blöðum. Stjórnvöld settu sér sjálfstætt markmið um 55% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda. Það markmið virðist hafa verið sett án þess að ríkisstjórnin hafi hugmynd um hvernig á að ná því markmiði. Markmiðið um 55% samdrátt var sett á síðasta ári, rétt fyrir afgreiðslu nýjustu fjármálaáætlunarinnar. Til þess að bregðast við þeirri stefnubreytingu var bætt við 1 milljarði kr. í fjárheimildir málaflokks loftslagsmála til tíu ára. Samtals 10 milljarðar, einn á hverju ári, ekki aukalega eins og sumir virtust túlka það, að það væri 1 núna og bætt við öðrum næst þannig að þeir yrðu 2 o.s.frv. Þetta er ekki þannig stigvaxandi. Það þýðir að heildarútgjöld málaflokksins eru 13 milljarðar kr. á næsta ári. Það verður að setja spurningarmerki við þá fjármögnun, því að fyrra markmið Íslands var 40% samdráttur í losun ásamt Evrópulöndunum og Noregi. Okkar hlutdeild í þeirri samvinnu var að ná 29% samdrætti í losun á Íslandi. Samtals myndu öll löndin ná 40% samdrætti af því að sum næðu meiri árangri á meðan önnur þyrftu ekki að leggja eins mikið af mörkum. Ákvörðun um 55% sjálfstæðan samdrátt, samkvæmt stjórnarsáttmála, óháð því hversu miklu við þurfum að ná í samstarfi við Evrópu og Noreg er því talsvert metnaðarfullt skref miðað við fyrri áætlanir ríkisstjórnarinnar. Sérstaklega ef á bara að fjármagna þau verkefni með 1 milljarði kr. aukalega, því að fjármögnun á eldra markmiði um 29% samdrátt kostaði 12 milljarða kr. á næsta ári. Það þýðir að annaðhvort var byrjað á dýru verkefnunum til þess að minnka losun eða að kostnaðaráætlunin er röng, annaðhvort of há fyrir fyrra markmið, sem virðist ekki vera raunin, eða seinni kostnaðaráætlunin fyrir hærra markmið um samdrátt á losun er of lág.

Ef kostnaðarmatið er rangt, og þá væntanlega of lágt, þá nást augljóslega ekki sett markmið og þá verðum við að spyrja okkur hvort það sé verið að reyna að plata okkur. Hverjum á að kenna um ef við náum ekki settum markmiðum?

Í umsögn Ungra umhverfissinna er minnst á skýrslu Sameinuðu þjóðanna: „… fjármögnun til loftslagsaðgerða þarf að vera a.m.k. 4% af VLF samkvæmt skýrslu Sameinuðu þjóðanna um takmörkun hnattrænnar hlýnunar við 1,5 gráðu frá iðnbyltingu“. Væntanlega að meðaltali fyrir öll lönd, en kannski þurfum við minna. Þegar við setjum sjálfstætt markmið um 55% samdrátt þá ættum við ekki að þurfa minna, myndi maður áætla. En það er nauðsynlegt að fjalla nánar um þá áskorun sem loftslagsváin er, bæði út af sjálfstæðu markmiði ríkisstjórnarinnar og vegna umfangs vandans.

Þó nokkrar deilur hafa verið í samfélagsumræðunni um hver vandinn sé í raun og veru og hvort þetta sé yfirleitt vandamál eða ekki. Það er skiljanlegt að mörgu leyti því að vísindin hafa ekki verið eins nákvæm og við myndum kannski vilja þegar um svona umfangsmikið verkefni er að ræða. Það er auðvelt að gagnrýna einstök atriði og greiningar fyrir að vera ónákvæmar. Það er auðvelt að benda á að jörðin var einu sinni miklu hlýrri og alls konar staðreyndir sem líta út fyrir að skipta máli fyrir þessa umræðu. Það er mikilvægt að bera virðingu fyrir efasemdunum, að hlusta á þær og svara þeim skipulega. Það er hins vegar líka mikilvægt að hlusta á skýringar og gagnrýna þær á málefnalegan hátt.

Það er oft notað sem rök í umræðunni að vísindasamfélagið sé almennt sammála þeim niðurstöðum að aukinn koltvísýringur í andrúmsloftinu á undanförnum áratugum sé af mannavöldum. Það eru auðvitað ekki sjálfgefin rök, að af því að meiri hlutinn segir það þá sé það þannig. Á sama hátt er það heldur ekki satt að af því að nokkrir vísindamenn séu ósammála milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál sé ekkert til sem heitir hnattræn hlýnun. Stundum eru það þau fáu sem mótmæla hisminu sem hafa rétt fyrir sér. Við þekkjum það t.d. mjög vel í Pírötum. En þegar vel er að gáð þá standast vísindin um loftslagsmál alla helstu gagnrýnina. Nei, þau eru ekki hárnákvæm. Það er óvissusvigrúm. Það eru mismunandi sviðsmyndir en þær benda allar í sömu átt.

Við höfum áður glímt við loftslagsvanda vegna annarra efna. Clair Patterson var einna fyrstur til þess að benda á blýmengun í lofti og til þess að sanna mál sitt fór hann heimshornanna á milli í gagnasöfnun. Orsökin var blý í bensíni. Barátta hans skilaði árangri. Annað vandamál voru CFC-gös sem eyða ósónlaginu. Svo óheppilega vill til að sá sem bjó til bæði þessi vandamál var sami vísindamaðurinn, Thomas Midgley Jr. Það var barátta Clairs Pattersons sem skilaði þeim árangri að blý var fjarlægt úr bensíni og það varð niðurstaða Montreal-samkomulagsins að stöðva eyðingu ósónlagsins. Á sama tíma var reynt að koma á aðgerðum gegn losun koltvísýrings, sem var vitað að ylli gróðurhúsaáhrifum, en olíuiðnaðurinn var einfaldlega með of sterk ítök í pólitíkinni til þess að það næði fram að ganga.

Síðan þá hafa vísindin orðið nákvæmari og viðameiri. Kannski ekki eins nákvæm og afgerandi og sumir myndu vilja og kannski er notað of sterkt orðalag fyrir suma til þess að lýsa vandanum, loftslagshamfarir eða eitthvað því um líkt. Fólki finnst kannski að verið sé að lýsa meiru en það sér. Það er stundum verið að lýsa vandanum eins og hann verður eftir tugi ára eða hundrað ár. Ef við myndum hætta losun nákvæmlega núna og næðum núlli núna þá yrðu samt hægfara breytingar næstu 200–300 ár, t.d. í hafinu. Það væri verið að jafna út hitabreytingar sem þegar eru að verða. En vísindin verða alltaf nákvæmari og meira afgerandi með tímanum og staðfesta sífellt mjög slæmar horfur fyrir framtíðina. Það er nefnilega vandi þessa máls í hnotskurn; afleiðingarnar skella ekki á okkur af fullum þunga núna. Þær vinna á smá saman, yfir mannsævi. Það gerir það að verkum að við verðum síður vör við áhrif þessara breytinga þangað til það verður of seint. Þess vegna er erfitt að sjá vandann núna og þar af leiðandi er erfitt að bregðast við honum. Sem betur fer er lausnin við vandanum góð, hvort sem vandinn er til eða ekki. Það er nefnilega áhugavert. Kjarni vandans lýsir sér í ósjálfbærni. Jarðefnaeldsneyti er ósjálfbær orkugjafi til lengri tíma, við þurfum hvort eð er aðrar lausnir og því fyrr sem við innleiðum sjálfbærar lausnir því betra. Ábatinn af því, bara í fjármálalegu samhengi, er svo miklu meiri en kostnaðurinn getur nokkurn tímann orðið. Afleiðingarnar af því að gera ekki neitt hins vegar geta orðið rosalega kostnaðarsamar fyrir mannlegt samfélag því að áhrifin af því sem þegar er farið að gerast koma ekki að fullu í ljós fyrr en eftir nokkur hundruð ár jafnvel og þau eru mikil. Og eins og ég segi, þótt þau væru ekki mikil er það samt góð hugmynd að ná samfélagi sjálfbærni. Það er einfaldlega góð hugmynd, fjárhagslega séð; það er meiri ábati, meiri hagvöxtur fyrir þá sem hafa áhuga á því, betra líf fyrir alla.

Það er erfitt að glíma við vandamál sem brennur ekki á okkur í dag. Það vantar húsnæði og við glímum við fátækt. Það eru raunveruleg vandamál sem við glímum við í dag og þarf að leysa strax. Allt annað sem við gerum hlýtur að valda því að nútímavandamálin leysast ekki, ekki satt? Ef við gerum eitthvað annað en að leysa þau vandamál sem brenna á okkur núna þá hljótum við að vera að gera minna í því að leysa nútímavandamálin, við erum að leysa framtíðarvandamálin.

Nei, málið er ekki það einfalt. Við verðum að geta gert fleira en eitt í einu og við verðum einmitt að huga að fjárfestingu til framtíðar. Það er eitt af nútímaverkefnum okkar sem brennur alltaf á okkur, hvað þá lýðfræðilegar breytingar sem við sjáum, öldrun þjóðarinnar og þess háttar. Það eru bara örfáir áratugir sem við höfum til að glíma við það. Það er gríðarleg fjölgun á eldra fólki miðað við yngra fólk. En það er í rauninni leiðrétting á fjöldanum. Hingað til höfum við verið með mjög fáa eldri borgara miðað við yngra fólk, sem er óeðlileg dreifing. Það býr bara til veldisvöxt í fólksfjölgun ef við reynum að viðhalda slíkri fólksfjöldadreifingu og það er einfaldlega ósjálfbært. Það þýðir að það verða að lokum svo margir menn búandi á jörðinni að næsti maður er bara við öxlina á þér, það er ekki pláss fyrir fleiri nema við förum til tunglsins og Mars. En við myndum aftur lenda í nákvæmlega sama vandamáli. Það þýðir að óhjákvæmilega mun þetta jafnast að lokum, annars er bara ekki pláss fyrir okkur. Kerfið þarf að geta virkað í þannig mannfjöldadreifingu milli eldra og yngra fólks. Það er tvímælalaust framtíðarverkefni sem við þurfum að byrja að leysa í dag, alveg eins og með loftslagsvandann. Ef við gerum það ekki þá verður framtíðarvandinn að nútímahausverk sem við verðum bara að berja okkur í hausinn fyrir að hafa ekki gert neitt í. Við erum að grafa okkar eigin holu. Gerum því ekki eins og heimski Hans sem leysti vandamál dagsins með lausnum gærdagsins. Hugsum fram í tímann og komum í veg fyrir að vandinn raungerist. Búum ekki til fleiri nútímavandamál. Leysum þau öll með því að hugsa um þau til framtíðar.

Lög um opinber fjármál áttu að vera stór uppfærsla á því hvernig fjárlög eru unnin og samþykkt af Alþingi og ef það væri í alvöru farið eftir lögunum væri það satt. En til þess þá þarf að fara efnislega eftir lögunum og anda þeirra, en ekki bara að uppfylla þau samkvæmt þeim stikkorðum sem birtast í texta laganna. Það er ekki nóg að leggja fram fjármálastefnu, fjármálaáætlun, fjárlög, fjárauka, ársskýrslu ráðherra og skýrslu um langtímahorfur. Það er ekki nóg að telja upp grunngildi opinberra fjármála. Það er ekki nóg að fylla bara inn í reitina og líta á sum skilyrði laganna sem valkvæð.

Lög um opinber fjármál setja stjórnvöldum skilyrði um hvernig þau eiga að haga fjármálum sínum. Stjórnvöld eiga að huga að festu, varfærni, sjálfbærni, stöðugleika og gagnsæi í sinni stefnumörkun. Það eru mjög skýrar ástæður fyrir því að þessar skyldur eru settar í lög. Stjórnvöld eiga nefnilega að geta útskýrt af hverju stefna þeirra býr til betra samfélag. Það þarf að svara spurningunum um hvað stefna stjórnvalda kostar, hver ábatinn er af stefnu stjórnvalda, hvaða aðrir möguleikar eru í boði og af hverju þeir eru ekki eins góðir. Ástæðan fyrir því að við krefjum stjórnvöld um svör við þessum spurningum er að við viljum gera betur ef stefna stjórnvalda stenst ekki væntingar, taka nýjar ákvarðanir ef þær gömlu virka ekki eins og við bjuggumst við. Það getur nefnilega gerst. Við gerum kostnaðaráætlun og ábatagreiningu sem stenst ekki. Það er allt í lagi. En þá vitum við kannski af hverju þær stóðust ekki og getum gert betur næst.

Það er hins vegar skiljanlegt að stjórnvöld þráist við að gera góðar kostnaðargreiningar. Að gera ekki ábatagreiningar. Að gera ekki valkostagreiningar. Í fyrsta lagi er það tímafrekt og ekki auðvelt. Þar er eðlileg hræðsla við mistök. Í öðru lagi gæti kostnaðar- og ábatagreining sýnt fram á óhagræði pólitískra ákvarðana, að „mér finnst“-geðþóttaákvarðanir stjórnmálamanna séu í raun og veru mjög slæmir kostir. Ef slíkur valkostur var kosningaloforð, verða stjórnmálamenn þá ekki að svíkja gefið loforð fyrir annan betri kost sem skilar meiri árangri? Væri það ekki ábyrgðarfullt? Við keyrum kosningabaráttu með loforðum um að byggja fleiri hús með því að flytja þau inn frá Kína eða eitthvað slíkt, en svo kemur bara í ljós að það verður miklu dýrara en við bjuggumst við. Við ætlum samt að gera það af því við lofuðum því, þannig virkar lýðræðið. Nei, það virkar ekki þannig.

Hér er því enn og aftur ítrekað að það er skylda stjórnvalda að gera kostnaðar- og ábatagreiningar, að gera valkostagreiningu og að forgangsraða verkefnum á gagnsæjan hátt. Hæstv. forsætisráðherra hefur mjög oft sagt að þetta sé svo erfitt, það sé ekki hægt að gera nákvæmar greiningar og þá ætli hún bara að sleppa þeim. Það er auðvitað alltaf einhver óvissa. Það er kaldhæðnislegt af því að tilgangur þessara greininga er einmitt að eyða óvissu og búa til einhverja nákvæmni. Eins og er þá erum við ekki með neitt. Það er augljóslega miklu ónákvæmara að vera ekki með neitt en eitthvað þar sem skeikar 100 milljóum til eða frá. Ef við erum ekki með neitt skeikar um óendanlega mikið til eða frá. Eins og með Hefjum störf-dótið sem kostaði 9,5 milljörðum meira en búist var við. Það er ekki beðið um að kostnaðargreiningar séu nákvæmar upp á krónu. Það dettur engum slíkt í hug, nema þeim sem vilja ekki gera svona greiningar og grípa því í jafn fáránleg rök og að það sé ekki hægt að gera nákvæmar greiningar. Fáránleg rök af því að það er enginn að biðja um nákvæmar greiningar. Fyrir áhugasama þá er þetta skólabókardæmi um strámannsrök: Búðu til skoðun fyrir einhvern annan og gagnrýndu svo skoðunina sem þú bjóst til.

Í fjárlagafrumvarpinu er að finna áhugaverða liði sem eru liðir ýmissa verkefna. Stundum er það meira að segja útskýrt, ráðuneytin koma og útskýra það fyrir okkur. Hérna eru 50 milljónir sem við vitum ekki enn í hvað við ætlum að nota, setjum það bara í ýmis verkefni og komumst að því seinna í hvað við ætlum að nota það. Það gengur ekki. Það virkar ekki svoleiðis.

Það geta verið málefnalegar ástæður fyrir því að fjárheimildir séu óútfærðar. Ég ætla ekki að útiloka það. Kannski er búið að gera valkostagreiningu og kostnaðarmeta nokkra möguleika en ekki er búið að taka pólitíska ákvörðun um hvaða kost á velja. En allar valkostagreiningarnar kosta svipað hvort eð er og þá er óhætt að segja: Þetta eru valmöguleikarnir, þeir kosta allir í kringum 100 milljónir. Þar af leiðandi ætlum við að fjármagna 100 milljónir. Síðan veljum við eftir á hvað við teljum vera best. Svo komum við auðvitað og látum ykkur vita hvað við völdum og af hverju, að sjálfsögðu. En þingið á hins vegar ekki að samþykkja óútfærðar fjárheimildir sem eru án málefnalegra undanþágna. Slíkar fjárheimildir þýða að ríkisstjórnin getur gert hvað sem er við þær fjárheimildir. Þannig virka fjárlög ekki því eins og stendur í stjórnarskránni að „ekkert gjald má greiða af hendi, nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum“. Augljóslega samþykkir þingið til dæmis ekki fjárheimild upp á 1.000 milljarða kr. fyrir ríkisstjórnina „til þess að gera hvað sem henni sýnist“. Það sama á við um fjárheimild fyrir 3,9 milljónir. Við erum með fjárlög hérna sem eru sundurliðuð af góðri ástæðu fyrir fjárheimildir einstakra verkefna. Ef það væri bara allt í lagi að samþykkja óútfærðar fjárheimildir, af hverju samþykkjum við þá ekki bara 1.000 milljarða til ríkisstjórnarinnar og segjum: Gjörið svo vel, gerið það sem ykkur sýnist? Að sjálfsögðu dettur okkur það ekki í hug og okkur ætti ekki að detta það í hug fyrir eina milljón.

Hérna er örstuttur kafli um spurningar nefndarinnar — eða stuttur, hann er í 19 liðum og ágætistextaveggur. Þetta er það sem nefndin sendi frá sér eða svona mest af því sem nefndin sendi frá sér til ráðuneyta og bað um svör. Það eru einnig tenglar í þau svör sem bárust. Ekki bárust svör við öllum spurningum, sem er ámælisvert, en það var líka út af tímaskorti og ég get alveg skilið það. Það var alla vega reynt að bregðast við flestu af því sem spurt var um en á klassískan máta, þ.e. það er svarað en það er ekki reynt að svara nákvæmlega spurningunni. Tæknilega séð er þetta svar u.þ.b. við því sem spurt var um, samt bara um það sem er ákveðið að svara, svipað og þegar forsætisráðherra kemur í óundirbúnar fyrirspurnir og svarar alltaf einhverju öðru en spurt er um. Það er samt svar, tæknilega séð, og það er u.þ.b. um sama málefni en samt ekki það sem spurningin var um. Það er mjög algengt.

Ég ætlaði að spyrja um það í upphafi ræðunnar: Hvort viljið þið góðu eða slæmu fréttirnar fyrst? Ég ætlaði að gera lýðræðislega könnun hérna en það varð ekkert af henni og ég byrjaði á slæmu fréttunum. En ég ætla að enda á góðu fréttunum: Þau lifðu hamingjusöm alla ævi. Þetta er ævintýraendirinn.

Á þeim stutta tíma sem ríkisstjórnin gaf þinginu til þess að vinna fjárlög voru nokkur stór mál sem eru augljóslega vanfjármögnuð af ríkisstjórninni. Við í minni hlutanum, sem mættum á fundi fjárlaganefndar, stöndum saman að breytingartillögum til þess að lagfæra þessa galla sem ættu að vera augljósir öllum, sérstaklega þeim sem mættu á fundi fjárlaganefndar og spjölluðu við ráðuneytin. Eitt sem kom t.d. fram hjá heilbrigðisráðuneytinu var reiknaður raunvöxtur, sem svo er kallaður. Það eru einfaldlega lýðfræðilegar breytingar, eldra fólki er að fjölga og þar af leiðandi verður meiri byrði á heilbrigðiskerfinu, það er þessi raunvöxtur sem er að aukast. Þau þurfa að bregðast við því á einhvern hátt með aukinni mönnun, betri tækjum, betri aðstöðu o.s.frv. Þessi fjárlagaliður var færður yfir í betra vaktavinnufyrirkomulag sem á einmitt að skapa svigrúm og auka þjónustu o.s.frv., frábært. Nú er sem sagt búið að fjármagna betra vaktafyrirkomulag en svo kemur samt raunvöxturinn og hellist yfir allt og þá hverfur þessi aukna hagræðing. Þannig að til að ná markmiðum um betri vinnutíma þá þarf líka að mæta raunvextinum. Heilbrigðisráðuneytið sagði: Já, við ætlum að biðja fjármálaráðuneytið um að bæta þessu við. En það kom ekki. Mjög spes.

Það eru sem sagt gallar og ef við værum í stjórn þá yrði augljóslega allt öðruvísi forgangsröðun. En í breytingartillögu okkar er þetta algjört lágmark sem þarf að bregðast við.

Hér er í fyrsta lagi um að ræða leiðréttingu á kjaragliðnun eldra fólks og öryrkja vegna lífskjarasamninganna. Umsögn BSRB sýnir þróunina mjög skýrt. Því er lögð til fjárheimild á málefnasviði 27 og 28 upp á 1,5 milljarða kr. á málefnasviði öryrkja og 2,5 milljarða kr. á málefnasviði eldri borgara til að jafna 1% hækkunina sem öryrkjar fá á lífeyri sinn, samtals 4 milljarðar kr. til þess að ná upp þeim lágmarksmun. Þá á enn eftir að brúa tveggja áratuga kjaragliðnun sem er stærra verkefni en hægt er að afgreiða í einum fjárlögum í flýti. Þeirri ábendingu er beint í umræður um endurskipulagningu á almannatryggingakerfinu sem ætti að ljúka við á næsta ári. Ekki er þó búist við því að ríkisstjórnin nái að ljúka því verkefni enda dugði ekki allt síðasta kjörtímabil til þess heldur. Samt voru þau með einhverja hetju í því ráðuneyti sem gerði fullt fyrir börnin en ekkert fyrir öryrkja eða aldraðra.

Í öðru lagi er það rekstrarvandi í heilbrigðiskerfinu og efling geðheilsumála eins og þingið samþykkti á síðasta kjörtímabili. Þær breytingar sem minni hlutinn gerir er að bæta við fjárheimild fyrir þann raunvöxt sem áætlaður er í kerfinu á næsta ári og að fella niður hagræðingarkröfu á Landspítala og Sjúkrahúsið á Akureyri. Þá er bætt við fjárheimild í heilbrigðisstofnanir utan sjúkrahúsa vegna geðheilbrigðismála, vegna forvarnamála og meðferðarúrræða sem þriðji geirinn sinnir, eins og SÁÁ, Reykjalundur, Frú Ragnheiður og önnur álíka verkefni. Sú fjárheimild fer einnig upp í sambærilegan rekstrarvanda og hjá Landspítala og Sjúkrahúsinu á Akureyri eins og umsagnir heilbrigðisstofnananna fjalla um.

Í þriðja lagi er það húsnæðisvandinn. Skýrsla HMS setur upp sviðsmynd þar sem hægt væri að ná niður uppsöfnuðum skorti á íbúðum á tíu árum. Til þess þarf að bæta við 3,5 milljörðum kr. í stofnframlög, með áherslu á uppbyggingu ódýrs leiguhúsnæðis, íbúðir fyrir fatlaða og nemendur.

Í fjórða lagi eru sérstakar ráðstafanir vegna sjálfbærniverkefna í nýsköpun og loftslagsmálum. Þar er annars vegar um fjárfestingarverkefni að ræða sem tengjast orkuskiptum, rafvæðingu hafna, brothættum byggðum, skólpmálum í sveitarfélögum. Allt eru þetta verkefni sem vinna í átt að sjálfbærni og hjálpa í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Og svo hins vegar rekstur en þar er að finna ýmsar ívilnanir og styrki vegna vísinda og verkefna í átt að sjálfbærni eins og Rannsóknasjóði, Tækniþróunarsjóði, loftslagssjóði og álíka verkefni.

Að lokum eru það menningarmálin. Faraldurinn hefur farið mjög illa með sjálfstætt starfandi listamenn út af takmörkunum sem hið opinbera setur. Það er vegna þeirra sem hlutirnir eru slæmir. Tillagan er einföld, að miða við sömu upphæð í sjóði menningar og lista og var árið 2021, að viðbættri launa- og verðlagsþróun.

Þessum breytingartillögum er ekki ætlað að vera heildarsýn á betra samfélag sem þessir flokkar hafa sem markmið sitt heldur einungis til þess að laga þá augljósu galla sem eru á frumvarpinu. Ef það á að sýna öryrkjum og eldra fólki sanngirni, halda sjó í heilbrigðiskerfinu, leysa húsnæðisvandann og ef það á í alvörunni að vaxa út úr vandanum, út úr faraldrinum, þá er þetta það sem þarf að lágmarki að gera.