152. löggjafarþing — 15. fundur,  21. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[23:53]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Forseti. Ef rétt er staðið að málum og í alvörunni sett fé í fjárfestingar og uppbyggingu til næstu ára, húsnæðismálin löguð og heilbrigðiskerfið stutt að grunni til, þá hef ég engar áhyggjur af hallanum, ekki neinar. Við erum ríkt land. Það kemur til með að jafna sig, ekkert mál. Ég trúi því alveg að stjórnin geti klúðrað því. Ég trúi því alveg líka. En ég hef ekki of miklar áhyggjur af hallanum, ekki ef við gerum þetta rétt.

Sjálfdæmi ráðherra með fjárheimildir. Nei, að sjálfsögðu ekki. En það sem ég var að benda á er að þetta virðist ekki virka. Í umsögnum ráðuneytanna, kynningu ráðuneyta, virkar það ekki eins og ráðherra var að lýsa. Þess vegna geri ég athugasemdir við formið að miklu leyti, af því að það er ekki farið eftir forminu. Það er ekki mikið þannig að það komi tillögur frá ráðuneytum til fjármálaráðherra sem fari bara beint með þær til þingsins. Það sást í dæminu um þegar heilbrigðisráðuneytið lagði til við fjármálaráðuneytið hvernig bæta ætti upp raunvöxtinn (Forseti hringir.) hjá Landspítalanum. En það gerðist ekki. (Forseti hringir.) Það kom ekki þaðan, frá fjármálaráðuneytinu til þingsins, (Forseti hringir.) það stoppaði einhvers staðar.

(Forseti (ÁLÞ): Ég ætla að biðja þingmenn um að gæta að tíma.)