152. löggjafarþing — 15. fundur,  22. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[00:03]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Herra forseti. Hjúkrunarheimilin voru mikið rædd í fjárlaganefnd á síðasta kjörtímabili og var kallað eftir þessari skýrslu sem svaraði því miður ekki öllum spurningunum sem nefndin hafði. Við urðum fyrir vonbrigðum með það, allir urðu fyrir vonbrigðum með það. Við erum ekki með nægilega haldgóð gögn um þjónustuþörfina. Ég held að það sé ekki búið að taka pólitíska ákvörðun um hvernig eigi að haga þjónustuinni í rauninni alveg frá því ferli þegar fólk þarf einhverja smáaðstoð, yfir í líknarmeðferð. Og hvað þarf til að sinna hverjum og einum? Það eru ekki bara dvalarheimili og hjúkrunarheimili og ekkert þar á milli. Það er mismunandi. Nú er verið að gera meira og meira í heimahjúkrun. En það er engin greining gerð eða pólitísk ákvörðun tekin um það hvernig kerfið á að líta út miðað við (Forseti hringir.) fólksfjölgun. Við erum ekki með neina stefnu fyrir framan okkur (Forseti hringir.) sem segir að það séu 200 í dag og við þurfum að ná 250 á næsta ári til að ná grunninum.