152. löggjafarþing — 15. fundur,  22. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[00:11]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Forseti. Það hefur einmitt verið breyting frá fyrri fjárreiðulögum í lögum um opinber fjármál þar sem ekki fer sjálfkrafa í fjáraukalög allt sem er í plús eða mínus á hverjum lið eftir árið, heldur fer það bara í halla á þeim lið. Það er ráðherra að bregðast við því. Þannig að nei, þessi mínus fer ekki í fjáraukalög næsta árs heldur lýsir hann sér einfaldlega í meiri halla Landspítalans, nema þau ákveði að skera niður á einhvern hátt eða að fara í einhverjar aðhaldsaðgerðir, sem okkur hefur ítrekað verið sagt að bitni bara á þjónustu. Allt hefur verið skorið við nögl frá því eftir hrun. Það þurfti að gera þá, skera alveg við nögl. Það hefur í rauninni ekkert bæst við síðan þá nema aukin verkefni og fjárheimildir sem fylgja því, sem laga ekki grunnreksturinn, og þessi reiknaði raunvöxtur. (Forseti hringir.) Núna er verið að taka hann af að hluta til. (Forseti hringir.) Landspítalinn er í raun enn í því ástandi (Forseti hringir.) sem hann var eftir hrun nema bara með fleira til að glíma við og þá reiknaðan raunvöxt í fjárheimildum þar á móti.