152. löggjafarþing — 15. fundur,  22. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[00:28]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Hún er orðin ansi ævintýraleg þessi framkoma hæstv. fjármálaráðherra hérna í kvöld. Í fyrsta lagi verð ég að leiðrétta hæstv. fjármálaráðherra því að hæstv. forseta Birgi Ármannsson var hvergi að finna á þessum fundi sem við kölluðum eftir. Hæstv. forseti sem situr í þessum ræðustól sagðist ekki geta tekið þátt í þeim fundi vegna þess að hæstv. forseti Birgir Ármannsson væri með umboð til að sitja þann fund, en hann kom ekki á fundinn. Það hefur ekki heyrst í honum svo ég viti til. Þannig að hver stýrir Alþingi? Þetta er einföld, skýr og sjálfsögð spurning. Hæstv. ráðherra er að reyna að gera að því skóna að við séum að fara í einhverjar felur með tillögur okkar hérna. Breytingartillögur stjórnarandstöðunnar liggja fyrir, þær eru öllum almenningi aðgengilegar. Við erum ekki að neyða ríkisstjórnina til að fara gegn sinni eigin sannfæringu heldur erum við að óska eftir því að ríkisstjórnin veiti fjárheimild fyrir lögum sem hún samþykkti sjálf. Meiri skelfingar frekjan í þessari stjórnarandstöðu, að biðja ríkisstjórnina að fylgja lögum.