Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 15. fundur,  22. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[03:11]
Horfa

Stefán Vagn Stefánsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég er sammála honum í því. Ég held að þessi niðurskurðarkrafa upp á 2% til lögreglunnar þurfi að vera í samræmi við þá aðhaldskröfu sem er í heilbrigðisþjónustunni. Reyndar er í því frumvarpi sem hér liggur fyrir búið að leiðrétta og bæta verulega í til lögreglunnar þannig að ég held að lögreglan komi þokkalega og mjög vel út úr þessum fjárlögum. En ég er kannski að horfa til næstu fjárlaga, að við munum reyna að sammælast um að laga þetta fyrir það. Mig langar líka hér rétt í lokin, tíminn er stuttur, að taka undir orð hv. þingmanns varðandi málefni fatlaðra. Það er gríðarlega stórt verkefni sem er mjög íþyngjandi fyrir sveitarfélögin og verður áhugavert að sjá hvað kemur út úr þessari skýrslu Haraldar Líndals, vonandi núna í febrúar. Ég skora á þingið að líta það mjög alvarlegum augum og skoða mjög alvarlega þá erfiðu stöðu sem er komin upp í þeim málaflokki.