152. löggjafarþing — 16. fundur,  22. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[11:40]
Horfa

Daði Már Kristófersson (V):

Forseti. Nýafstaðnar kosningar sýndu að þjóðin telur sig hafa það gott. Hún valdi að viðhalda óbreyttu ástandi og hafnaði meiri háttar breytingum. Freistandi er að fara eftir þessum vilja, forðast erfiðar ákvarðanir og treysta á að þetta blessist allt saman, það hefur að jafnaði gert það hingað til. En því miður er slík nálgun tæplega raunhæf. Rekstur hins opinbera var orðinn ósjálfbær þegar á árinu 2019. Kórónuveirufaraldurinn hefur síðan sett hann alveg á hliðina. Langvarandi hallarekstur ríkissjóðs bitnar á endanum á þjóðinni. Hann ýtir undir þenslu sem birtist að lokum í neikvæðum áhrifum, eins og t.d. verðbólgu. Sífellt meira af tekjum ríkisins þarf að ráðstafa til að þjónusta skuldir, tekjur sem ríkið þarf að afla með skattlagningu þegnanna. Aukin skattlagning og aukin umsvif hins opinbera skerða getu hagkerfisins til verðmætasköpunar og bitna á hagvexti til lengri tíma. Nú er farið að rofa til í hagkerfinu. Þörf fyrir áframhaldandi stuðning hins opinbera fer minnkandi. Óbreytt ástand er því ekki í boði. Erfiðar ákvarðanir eru óumflýjanlegar. Aðgerða er þörf, hvort sem okkur líkar það betur eða verr.

Forseti. Við höfum séð þetta gerast áður í sögunni. Ef horft er til áranna í kringum 1970 voru aðstæður um margt svipaðar. Áfall hafði riðið yfir þjóðina í formi síldarbrests og mikill verðbólguþrýstingur var alþjóðlega vegna hallareksturs ríkissjóða víða um heim og hækkana á olíu. Kæruleysisleg viðbrögð þá leyfðu viðvarandi hallarekstur á ríkissjóði Íslands og launaskrið sem olli síðan mikilli verðbólgu sem tók langan tíma að ná tökum á. Neikvæðu afleiðingarnar fyrir íslenskar fjölskyldur og fyrirtæki urðu miklar, margvíslegar og langvarandi. Betur tókst í kjölfar hrunsins. Þá var stjórnvöldum nauðugur einn kostur að bregðast við og forgangsraða en þá var líka fylgt áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins svo að umtalsvert aðhald var á innlendri ákvarðanatöku. Það er nefnilega ekki gaman fyrir stjórnmálamenn að þurfa að neita þjóðinni um það sem hún óskar eftir. Freistnivandi stjórnmálamanna að hinkra með óvinsælu ákvarðanirnar er mikill, að fresta vandanum og láta næstu ríkisstjórn um að takast á við hann. Við sem höfum verið valin til að taka þessar ákvarðanir þurfum að standa í lappirnar.

Forseti. Lögum um opinber fjármál var komið á í þeim tilgangi að draga úr þessari hættu. Þau áttu að styðja stjórnvöld í að taka ákvarðanir sem eru sársaukafullar til skamms tíma en skila betri niðurstöðu fyrir þjóðina til lengri tíma litið. Frávik frá þessum lögum og skyndiafgreiðsla fjárlaga sem við nú upplifum er því mikið áhyggjuefni. Nýlegt álit fjármálaráðs undirstrikar þá hættu sem við erum í. Frávik frá lögum um opinber fjármál veikja aðhald í ákvarðanatöku stjórnvalda. Hraðafgreiðsla fjárlaga og fjármálaáætlana víkur frá hugmyndum um víðtækt samráð og gegnsæi sem stuðla áttu að sátt um þær málamiðlanir sem nauðsynlegar eru á erfiðum tímum. Á okkur hvílir sú skylda að taka ákvarðanir í þágu langtímahagsmuna þjóðarinnar. Það er ekki auðvelt þegar aðhaldið er ekkert og tíminn til umræðu er naumt skammtaður.

Forseti. Mikilvægt er að árétta að margt er með öðrum hætti nú en í byrjun áttunda áratugarins. Hagkerfið er fjölbreyttara, staða ríkisfjármála er betri, heilbrigðara fyrirkomulag ríkir í gjaldeyrismálum og hagstjórn og útflutningsatvinnuvegirnir eru fleiri og fjölbreyttari. Það þýðir þó alls ekki að hætturnar séu minni. Þær nýju útflutningsafurðir sem þróast hafa á undanförnum árum í skjóli þess stöðugleika sem einkennt hefur tímabilið eftir hrun eru að öllum líkindum viðkvæmari fyrir innlendum hagstjórnarmistökum en þeir útflutningsatvinnuvegir sem einkenndu Ísland á áttunda áratugnum. Grófflokkun Hagstofu Íslands á útflutningi inniheldur liðina sjávarútvegur, stóriðja, ferðaþjónusta og annað. Í sjö af átta undangengnum ársfjórðungum hefur annað verið stærsta útflutningsgrein Íslands. En hvað er þetta annað? Jú, það inniheldur mjög marga og fjölbreytilega hluti; landbúnaðarafurðir og möl, sælgæti og brotajárn. Vöxturinn í þessum liðum á undanförnum árum hefur þó fyrst og fremst komið frá fiskeldi, eða um fjórðungur, og síðan frá útflutningi á sérfræðiþjónustu, tækni, hugviti og hugverkum, eða 75% af þessari aukningu. Þessi útflutningur hefur vaxið á undanförnum árum að meðaltali um 9% á ári. Jafnt og þétt er að verða til ný stoð í íslensku atvinnulífi. Það er sérstakt gleðiefni að þessi vöxtur hefur verið mestur á undanförnum þremur árum, á Covid-tímabili. Þessi þróun er afar eftirsóknarverð fyrir samfélagið. Hún eykur stöðugleika og jafnar sveiflur fábreyttra útflutningsatvinnuvega. Að henni standa alls konar fyrirtæki í alls konar starfsemi sem selja alls konar vöru og þjónustu. Þessi viðbót er því líklegri til að leiða til stöðugleika en greinar eins og t.d. ferðaþjónusta. Hún skapar fjölbreytt, vel launuð störf fyrir alls konar sérfræðinga og hæfileikafólk. Hún hvetur til enn frekari nýsköpunar og vaxtar með því að dýpka vinnumarkað og skapa hvata til að draga til landsins fólk með hæfileika. Að þessum vexti þarf að hlúa. Það gerum við ekki síst með ábyrgri hagstjórn. Alþjóðleg samkeppni er hörð en ábatinn af góðum hugmyndum í alþjóðavæddum heimi er mjög mikill. Nýsköpunarfyrirtæki eru hins vegar háðari fyrirsjáanleika og stöðugleika í sínum rekstri en flest önnur fyrirtæki. Þau nýta ekki takmarkaðar staðbundnar auðlindir. Ákvarðanir um staðsetningu þeirra í heiminum byggja því meira á almennum rekstrarskilyrðum en rekstur annarra útflutningsfyrirtækja. Það væri mjög misráðið að leggja stein í götu þessara fyrirtækja með kæruleysislegri ákvarðanatöku um rekstur hins opinbera. Við þurfum að standa í lappirnar.

Forseti. Fyrir tæpum fjórum áratugum stóð faðir minn, þá einnig nýr þingmaður, í þessum ræðustól. Skilaboð hans voru af mjög svipuðum meiði og mín: Öxlum þá ábyrgð sem við höfum sóst eftir að þjóðin leggi á okkur, forðumst ekki erfiðar ákvarðanir en gefum okkur tíma til að vanda þær. Ákvarðanirnar sem eru teknar í þessum sal hafa víðtæk áhrif í íslensku samfélagi. Skyndiafgreiðsla fjárlaga og frávik frá reglum laga um opinber fjármál eru ekki til eftirbreytni.