152. löggjafarþing — 16. fundur,  22. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[11:53]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Forseti. Einmitt, nákvæmlega þetta: Heldur en reyndist vera. Frá upphafi faraldursins var talað um það væri svo mikil óvissa og lausnin var að bregðast við jafnóðum. En það voru alger mistök af því að það þýddi að það var aldrei horft tvö skref fram í tímann. Ef faraldurinn yrði ekki bara þetta fyrsta vor eða sumar sem fyrsta bylgjan kom upp, hvað þá? Ef hann yrði lengri, hvað þá? Það var ekki tilbúið. Það átti bara að bregðast við jafnóðum. Og þegar byrjað var að bregðast við því var það orðið of seint fyrir þá bylgju.

Við vitum ekki nema þetta verði kannski síðasta bylgjan þegar ómíkron kemur hingað. Það væri jafn slæm ágiskun og í upphafi árs í fyrra. En það er á sama tíma nákvæmlega jafn góð ágiskun. Það getur verið nákvæmlega þannig; að við eigum bara þrjá mánuði, sex mánuði eftir í þessu og svo er þetta bara algerlega búið, hverfur eins og það hafi aldrei verið hérna. Við vitum það bara ekki og það er óvissan sem stjórnvöld eiga að eyða með einmitt aðgerðum eða tillögum að aðgerðum til þess að í rauninni friða þá sem eru í óvissu. Ef það raungerist síðan ekki og ef faraldurinn heldur ekki áfram þá er enginn skaði skeður að hafa haft alla vega þau plön að gera meira og gera betur. En við erum alltaf í þeirri stöðu að við horfum þrjá mánuði fram í tímann og sjáum svo hvað gerist. Þá verður engin heildaryfirsýn, þá verðum við alltaf í óvissu. Ég held að það sé ein stærsta lexían sem við getum lært af þessari kreppu; að plana ekki til of skamms tíma í senn.