152. löggjafarþing — 16. fundur,  22. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[15:35]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Það væri náttúrlega hægt að halda þessari upptalningu á ótengdum áætlunum áfram endalaust. Við höfum líka oft á síðustu árum samþykkt samgönguáætlun þar sem áhrif á loftslagsmál eru ekkert metin þótt væntanlega sé um að ræða þá áætlun ríkisins sem hefur mest áhrif á loftslagsmál til lengri tíma. Og talandi um áætlanir í sama ráðuneyti sem kallast ekki á hvor við aðra. Við erum líka með áætlanir um sömu atriðin í ólíkum ráðuneytum sem kallast ekki á. Af því að þingmaðurinn var að tala um vernd og endurheimt vistkerfa þá minnir mig að í kafla sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í fjármálaáætlun fyrir kannski tveimur árum hafi verið kafli um votlendi þar sem markmið voru önnur en í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar. Maður hefði haldið að fólk talaði eitthvað saman um þessi mál.

Hv. þingmaður vék að því í ræðunni hve mikilvægt væri að markmiðin væru samofin, eins og þessar áætlanir þurfa að vera, og ekki bara það heldur líka að þau væru mælanleg og fjármögnuð þannig að fólk sjái að fjármagnið dugi til að ná markmiðunum. Þá langar mig að velta því upp hvort við sjáum í fjárlagafrumvarpinu einhver skref í þá áttina. Fjármagn til loftslagssjóðs og loftslagsráðs er t.d. að dragast saman. Ég hefði sagt, til að almenningur og við sem mótun stefnuna vissum hvað væri að gerast í markmiðunum, að það þyrfti t.d. mjög öflugt og gagnrýnið loftslagsráð hlaðið sérfræðingum sem gætu rýnt allt saman í þaula. En það mun ekki gerast í þessum fjárlögum.