152. löggjafarþing — 16. fundur,  22. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[15:59]
Horfa

Arnar Þór Jónsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir tækifærið að fá að koma hingað aftur og greina nánar frá því sem ég var að tala um, ef það var eitthvað óskýrt í því sem ég sagði. Ég hef einfaldlega verið að leggja það til að umræða um sóttvarnamál og aðgerðir sem lúta að sóttvörnum eigi sér umræðu á breiðari fræðilegum og pólitískum grunni en við höfum séð hingað til. Ég hef haft áhyggjur af því að í stað breiðrar lýðræðislegrar og almennrar umræðu sé málum um sóttvarnir beint í þann farveg að sóttvarnalæknir einn gerir minnisblað án þess að hafa sjáanlega ráðfært sig við aðra fræðimenn á því sviði, án þess að tillögur hans hafi með einum eða öðrum hætti verið tempraðar, án þess að honum sé veitt nægilegt og sjáanlegt fræðilegt aðhald. Þetta tel ég að sé merki um stjórnarfar sem ekki samræmist því sem kennt er við klassískt lýðræði og réttarríki og geti hugsanlega vegið að borgaralegu frelsi í landinu og ég hef reyndar sagt það, ég stend við það, að ég tel að það hafi verið raunin. Og ég segi það líka, fyrst ég fæ tækifæri til að koma hérna upp aftur, að ég tel að við sjáum ekki fyrir endann á þeirri frelsisskerðingu sem við stöndum frammi fyrir nú og það er í mínum huga mikið áhyggjumál. Þannig að ég er að hvetja til þess að umræðan verði breikkuð, völdin verði tekin úr höndum sérfræðinga og fleiri virkjaðir. Í það minnsta væri það réttaröryggismál fyrir borgarana að fleiri sérfræðingar færu að koma að þessum málum þannig að völd séu tempruð. Það er í raun og veru í klassískum skilningi markmið lýðræðisins og markmið þingræðisins að völdin séu tempruð og það sé leitað jafnvægis í því hvernig við stjórnum landinu. (Forseti hringir.)

Varðandi bólusetningarnar hef ég bara hvatt til allrar varúðar í þeim efnum.(Forseti hringir.) Ég þakka aftur fyrir gott hljóð, virðulegi forseti.