152. löggjafarþing — 16. fundur,  22. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[16:19]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Forseti. Aðeins til að klára umræðuna og búa í rauninni til framhald fyrir meðhöndlun fjárlaga hér á þingi. Það hefur komið vel fram í umræðunni hversu ógagnsæ þessi fjárlög eru, gríðarlega ógagnsæ og það gengur lengra núna. Ef við ætlum t.d. að greiða atkvæði um breytingartillögur meiri hluta eða breytingartillögur minni hluta þá eru t.d. breytingartillögur sem koma fram um forsætisráðuneyti upp á 40 milljónir, 35 milljónir og 10 milljónir, en breytingartillaga meiri hluta er upp á 85 milljónir, ekki 40, 35 og 10. Ef ég sem þingmaður vil segja: Já, ég vil samþykkja fjárheimild til forsætisráðuneytis um skoðun á ákvæðum stjórnarskrár upp á 10 milljónir, þá get ég það ekki. Ég get ekki beðið um sundurliðun á þessum 85 milljónum sem eru í breytingartillögu meiri hluta til að segja já við 10 milljónum en kannski að sitja hjá við hinum tillögunum um 40 og 35 milljónir. Þetta er galli sem er gegnumgangandi í fjárlagafrumvarpinu núna og fjárlagagerðinni sem lýsir sér í skorti á gagnsæi og skilningsleysi gagnvart því sem er gert í þessum þingsal varðandi það að samþykkja fjárheimildir. Mig langaði bara að ýta því að formanni fjárlaganefndar hvort við ættum ekki að fara í ansi mikla vinnu á komandi misseri og á þessu kjörtímabili að laga þetta þannig að það sé skýrt að fjárveitingavaldið sé hérna og þannig að við getum greitt atkvæði um einstaka tillögur um fjárheimildir, eins og maður hefði haldið að við ættum að geta gert.