152. löggjafarþing — 16. fundur,  22. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[16:23]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrir það. Ég vil þó bara segja að ég hef ekki orðið var við þessi hænuskref, það er vandamálið. Við þurfum að skoða nákvæmlega þessi lög, fjárlög og líka fjármálaáætlun, stefnu stjórnvalda og alveg niður í ársreikninga ráðherra. Framsetningin á þeim á að vera á því formi sem við viljum og almenningur og þjóðin þarf til þess að geta skilið hvað verið er að gera við almannafé. Ég hef aldrei orðið var við það að við séum spurð eða að þjóðin sé spurð um það hvernig eigi að haga þessu. Gróf hugmynd gæti verið að sundurliða jafnvel málaflokka eða málefnasvið eftir lögum, sýna hvað framkvæmd þessara laga kostar. Þá er hægt að spyrja um sundurliðun á ýmsum verkefnum innan þeirra laga o.s.frv. Grunnurinn að því sem við gerum hérna er einmitt að setja lög sem eru með kostnaðarmat sem við erum með eftirfylgni á og eftirlit með að séu framkvæmd á viðeigandi hátt. Hluti af því eftirliti er að fylgjast með því að kostnaðurinn sé viðunandi í samræmi við kostnaðarmat á lagagreinum. Maður veltir fyrir sér hvort það yrði gagnsærra að einhverju leyti eða ekki. Maður myndi alla vega skilja samhengið, það sem er alltaf kallað innan ramma eða heildarramminn frá síðasta ári eða eitthvað svoleiðis. Þá væri einhver sundurliðun á því sem maður getur séð þróun á yfir árin.