152. löggjafarþing — 16. fundur,  22. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[18:04]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Eins og ég kom inn á áðan eru þessi fjárlög alls ekki nóg. Þau eru ekki nóg til að tryggja viðunandi rekstur sjúkrahúsa á Íslandi í miðjum heimsfaraldri. Við erum bara að leggja til lágmarksupphæð sem þarf til þess að komast mögulega aðeins frá þeirri sveltistefnu sem rekin hefur verið gagnvart heilbrigðiskerfinu hérna í áraraðir. Þetta er lágmarkstillaga. Það er ekki hægt að viðhalda þessu ástandi, að halda heilbrigðisstofnununum okkar í viðvarandi fjársvelti, að leyfa öldrun þjóðarinnar og fólksfjölgun að bitna á gæðum þjónustunnar. Það verður ekki heilbrigðiskerfi í fremsta flokki. Það er ekki eitthvað sem við getum verið stolt af. Ég hvet meiri hlutann til að snúa afstöðu sinni í þágu betri heilbrigðisþjónustu á Íslandi. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

(Forseti (LínS): Forseti vill hvetja hv. þingmenn til að greiða atkvæði.)

Takk fyrir, forseti.