152. löggjafarþing — 16. fundur,  22. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[18:22]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil, eins og aðrir þingmenn, gleðjast yfir þessu framlagi. Það mun koma sér vel til viðbótar við þá fjárhæð sem lögð hefur verið til í þessa samninga. Ég vil taka undir hvert orð sem hér hefur verið sagt um geðheilbrigðismál og draga það fram að þetta styður við þá vegferð sem við erum á. Það fara 400 milljónir til geðheilbrigðismála í frumvarpinu og við höfum tvívegis með Covid-stuðningi lagt til þessara mála, 540 milljónir síðast. Þá fara hér 80 milljónir í skólana. Verið er að styðja geðheilbrigðisteymi um allt land og sálfræðiþjónustu í heilsugæslunni, þannig að ég held að við séum sífellt að taka betur utan um þennan málaflokk. Þess vegna fagna ég þeirri samstöðu sem náðist í nefndinni.

Ég þakka hv. fjárlaganefnd og ekki síst minni hlutanum fyrir það framlag sem hér birtist og styð það heils hugar.