152. löggjafarþing — 16. fundur,  22. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[18:55]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Hér er um að ræða enn eitt tilvikið þar sem er ekki nóg fjármagn. Það er ekki verið að bæta við 320 milljónum hér í raun og veru því að það voru felldar niður 300 milljónir af þessum lið í fjárlögum. Það er einfaldlega verið að vega það upp að nýju með verðlagsbótum, launabótum og þess háttar. Þetta snýst um NPA-samninga sem oft hefur verið minnst á hérna. Í lögum er kveðið á um að ríkið eigi að greiða með ákveðið mörgum samningum á hverju ári; 2018 80 samningum, 2021 150 samningum og á næsta ári 172 samningum. Það er verið að uppfylla 93 af þeim á þessu ári, svipað á næsta ári miðað við þessa fjárheimild. Þetta er ekki viðbót, þetta er stöðnun, þrátt fyrir að fjölga eigi samningum. Hér er aftur ekki staðið við fjárveitingar samkvæmt lögum sem Alþingi setti. Hér fer ekki saman lagabókstafurinn sem er samþykktur hérna og síðan fjárheimildin sem á að samþykkja til að uppfylla lögin. Enn og aftur.