152. löggjafarþing — 17. fundur,  27. des. 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2022.

3. mál
[11:23]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Jóhann Páll Jóhannsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er athyglisvert að heyra þessi sjónarmið. Þau ganga auðvitað þvert á þær röksemdir sem koma fram hjá ráðuneytinu. Ráðuneytið færir rök fyrir sínu máli og vísar til gagna um stöðu byggingargeirans o.s.frv., en hér virðist meira talað út frá einhvers konar tilfinningu fyrir því hvernig hlutirnir séu. Ég vil líka minna á að áður en Allir vinna-úrræðið hófst þá var náttúrlega verið að greiða út 60% af virðisaukaskatti. Það hafa ekki komið fram neinar greiningar á því og það hefur ekki verið sýnt fram á það með neinum hætti að það að hækka þetta hlutfall upp í 100% muni einhverju þegar kemur að skattskilum. Það sem við vitum hins vegar er náttúrlega að þetta rýrir virðisaukaskattsstofninn um 7,2 milljarða, minnir mig.

En að öðru og það eru forgangsaðgerðir ríkisstjórnarinnar í almannatryggingum, þ.e. hækkun frítekjumarks atvinnutekna hjá eldra fólki. Við í nefndinni fengum það staðfest þann 15. desember síðastliðinn að ábatinn af þessari aðgerð rynni til um 1.300 manns. Hann fer nær allur til tekjuhæsta fólksins og þar af fara 67% til karla og 33% til kvenna. Mér þætti fróðlegt að heyra frá hv. formanni nefndarinnar hvers vegna þetta er svona mikið forgangsmál, hvort henni finnist í alvörunni sanngjarnt að hafa frítekjumark atvinnutekna átta sinnum hærra en frítekjumark lífeyristekna hjá eldra fólki. Hvers vegna er ekki frekar farin sú leið, sem við vitum að dreifist miklu jafnar eftir kyni og eftir tekjum, eftir tekjutíundum, að hækka almenna frítekjumarkið? Hvers vegna er það ekki frekar gert?