152. löggjafarþing — 18. fundur,  28. des. 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2022.

3. mál
[11:15]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Hæstv. forsætisráðherra hefur þegar farið yfir þær mikilvægu breytingar sem snúa að nýju viðmiði fyrir þróun og þrepaskiptingu skattleysismarka. Ég ætla bara að taka undir það og ekki eyða fleiri orðum í það. En í þessum tekjubandormi er auðvitað verið að marka stefnuna fyrir komandi ár og styðja við ýmislegt sem lagt er til í fjárlagafrumvarpinu. Mig langar að nefna nokkur mikilvæg atriði. Það er hækkun á barnabótum, hækkun á álagi á grunnatvinnuleysisbætur vegna framfærslu barna og breytingar sem meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar leggur til sem miða að því að lækka skerðingarhlutfall í örorkulífeyriskerfinu. Það er gríðarlega mikilvægt, m.a. svo að hækkanir á bótum þar leiði ekki til falls á krónu. (Forseti hringir.) Hér er því um margar og góðar og mikilvægar tillögur að ræða sem ég mun styðja.