152. löggjafarþing — 18. fundur,  28. des. 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2022.

3. mál
[11:44]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Mig langar að þakka hv. efnahags- og viðskiptanefnd eða meiri hluta hennar fyrir að leggja fram þessa breytingartillögu um lagfæringu á sóknargjöldum. Eins og ég hef áður komið inn á í þessu púlti þá sat ég í efnahags- og viðskiptanefnd þegar við vorum að afgreiða fjárlagafrumvarp síðast og stóðum við þá í þeirri meiningu að við værum að leiðrétta þetta til frambúðar en það væri ekki þetta bráðabirgðaákvæði sem svo á endanum varð. Þannig að ég fagna þessu og greiði atkvæði með tillögunni en beini því jafnframt til hæstv. ráðherra að við endurskoðum lög um sóknargjöld því að það gengur auðvitað ekki að við séum að takast á um þetta hér á hverju þingi og breyta milli umræðna. Það er bara eðlilegt að lagabálkurinn um sóknargjöld verði lagfærður þannig að við getum fylgt eðlilegri þróun sóknargjalda á ári hverju í fjárlögum.