Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 36. fundur,  9. feb. 2022.

störf þingsins.

[15:17]
Horfa

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Lífið er list. Allt í kringum okkur iðar lífið af tónlist, litum og skapandi hugsjónum. Sköpunarhæfileikar okkar eru mismunandi og í mínu tilviki eru hæfileikarnir mjög takmarkaðir. Sum okkar ákveða þó að gera listsköpun að ævistarfi sínu og nú erum við farin að átta okkur enn betur á því að list er tekjuskapandi í stóra samhenginu. Í síðasta mánuði var til að mynda úthlutað úr sjóði starfslauna listamanna. Eftir úthlutun var bent á að ungt listafólk væri ólíklegra til að hljóta starfslaun en þau sem reyndari eru. Því var ákveðið að sérstakt fjármagn væri eyrnamerkt ungu listafólki og það skiptir máli að styðja við upprennandi listafólk. Einn ungur tónlistarmaður sem hefur hlotið starfslaun listamanna sagði við mig, með leyfi forseta: Listamannalaunin hafa reynst ómetanleg aðstoð við að koma undir sig fótunum sem ungur tónlistarmaður í kjölfar náms. Þau gera það að verkum að ég get einblínt á nýja íslenska tónlist af öllum toga og stundað mínar rannsóknir í þágu íslensks menningararfs af fullum þunga.

Hæstv. forseti. Fólk stekkur ekki fram á sjónarsviðið sem fullmótaðir og þroskaðir listamenn. Það þróast í starfi. Því fyrr sem við gefum fólki tækifæri á því að efla sína sköpun, og gera það þannig að möguleiki sé á því að afla tekna með listinni, því betra. Þó er það ekki bara ríkisins að styðja við íslenska menningu, við sem neytendur getum gert margt til að styðja hana og styrkja. Með stafrænni þróun opnast gáttir fyrir okkur sem neytendur til að styðja við íslenska menningu. Það eru mikil verðmæti sem felast í íslenskri list og menningu og því er mikilvægt að stjórnvöld styðji við og styrki ungt og upprennandi listafólk.