Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 38. fundur,  21. feb. 2022.

almenn hegningarlög.

318. mál
[17:18]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir þessa lagabreytingu. Það hefur skort mjög á að orða þetta ákvæði vel og ég fagna því að við séum að lögfesta þessar breytingar. Svo vildi ég líka vekja athygli á því að ég náði ekki að banka og biðja um að fá að fara í andsvar áður en hæstv. ráðherra lauk máli sínu áðan. Þetta á mögulega betur heima þar. En allt í lagi, ég held mig bara við þetta.

Ég er hins vegar að velta því fyrir mér hvers vegna þetta frumvarp er í farvegi núna en ekki á síðasta kjörtímabili þar sem tilmælum starfshópsins var beint til dómsmálaráðuneytisins. Þetta er tiltölulega einfalt frumvarp sem varðar nauðsynlegt málefni, eins og fram hefur komið í dag. Eins er ég að velta því fyrir mér hvort atvikið í Namibíu hafi leitt til þess að starfshópurinn hafi beint þessum tilmælum til dómsmálaráðuneytisins varðandi nauðsynlegar lagabreytingar er varðar erlend mútubrot.

Forseti. Í greinargerðinni kemur líka fram að vinnuhópurinn hefur lýst áhyggjum yfir því að íslensk stjórnvöld hafi ekki enn lokið við rannsókn á einu einasta sakamáli er varðar mútugreiðslur til erlendra, opinberra starfsmanna. Því spyr ég hæstv. dómsmálaráðherra: Hversu mörg mál eru það sem standa enn órannsökuð? Hvað veldur þessum seinagangi? Og hvers vegna er meira púður lagt í að rannsaka stolinn síma en að rannsaka mútur til erlendra, opinberra starfsmanna? Er þetta virkilega forgangsröðunin sem við viljum taka til fyrirmyndar?