Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 39. fundur,  22. feb. 2022.

störf þingsins.

[13:35]
Horfa

Kolbrún Baldursdóttir (Flf):

Virðulegi forseti. Í dag mun ég leggja fram tillögu um endurskoðun á tekjugrundvelli grunnskólakerfisins. Rekstrargrundvöllur sveitarfélaga hefur versnað undanfarna áratugi. Afkoma þeirra hefur verið neikvæð frá árinu 2007. Samband íslenskra sveitarfélaga tilkynnti í gær að sveitarfélög verði rekin með 6,4 milljarða kr. halla á þessu ári. Ljóst er að tekjustofnar sveitarfélaganna duga ekki að óbreyttu til að fjármagna lögbundna þjónustu, þar með talið grunnskólakennslu. Þá er löngu tímabært að endurskoða reglur um úthlutun jöfnunarframlaga vegna grunnskólakennslu. Reykjavík hefur allt frá stofnun jöfnunarsjóðs verið fyrir utan sviga að ákveðnu leyti vegna stærðar sinnar og nýtur ekki framlaga til jöfnunar á rekstri grunnskóla né framlaga vegna nemenda með íslensku sem annað tungumál. Nemendur með íslensku sem annað tungumál eru hvergi fleiri en í Reykjavík. Lýðfræðileg samsetning, tekjur og útgjöld eða önnur málefnaleg sjónarmið geta engu breytt um hvort Reykjavík eigi rétt til tilvitnað framlags af þeirri einu ástæðu að íbúar Reykjavíkur eru fleiri en 70.000. Til að tryggja jafnræði þarf að endurskoða lög og reglur þannig að öll sveitarfélög geti átt rétt til jöfnunarframlaga. Þá er löngu kominn tími til að endurskoða fjármögnun grunnskólakerfisins enda hefur rekstur grunnskóla tekið miklum breytingum frá því að reksturinn færðist yfir til sveitarfélaganna árið 1996. Dregið hefur úr fjölda nemenda fyrir hvert stöðugildi í grunnskólum og því ber að fagna enda mikilvægt að hvert barn fái viðeigandi stuðning. Fjármagn þarf að fylgja og því þarf að endurskoða tekjugrundvöll grunnskólakerfisins með tilliti til þeirrar þróunar sem átt hefur sér stað á undanförnum áratugum og tryggja öllum sveitarfélögum tekjustofna sem duga til að veita börnum góða menntun.