Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 39. fundur,  22. feb. 2022.

störf þingsins.

[13:53]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P):

Forseti. Þróun mála í austurhluta Úkraínu og framganga Rússlands er grafalvarlegt mál. Við erum að horfa upp á hættulegt og kolólöglegt þjóðréttarlegt fordæmi, ekki ósvipað því að eitthvert stórveldið myndi óvænt lýsa yfir sjálfstæði Vestfjarða og senda síðan herlið til Hólmavíkur. Við Íslendingar, peð í valdatafli heimsveldanna, sem eigum allt okkar undir alþjóðlegri samstöðu, þurfum að beita okkur gegn slíkum yfirgangi. Ef við stöndum ekki með vinum okkar, af hverju ættu þeir þá að standa með okkur? Það er allra hagur að halda friðinn og því ætti að vera forgangsmál að fá stríðandi fylkingar að samningaborðinu áður en til eiginlegra átaka kemur og Íslendingar ættu að leggja allan sinn þunga á að svo megi verða. Takist það hins vegar ekki og bandalagsþjóðir okkar láta verða af þeim viðskiptaþvingunum sem þær hafa boðað gegn Rússum ættum við að reyna að tryggja að aðgerðirnar beinist gegn efstu lögum rússnesks samfélags en ekki að almennum borgurum í Rússlandi sem hafa ekkert sér til saka unnið. Að sama skapi þurfum við Íslendingar að spyrja okkur stórra spurninga á næstu dögum ef til átaka kemur, t.d. hvort við munum bjóðast til þess að taka við úkraínsku flóttafólki sem gæti þurft að leita hér skjóls.

Ég á von á að hæstv. utanríkisráðherra upplýsi þingið um stöðu mála við fyrsta mögulega tækifæri, ekki síst um viðbrögð íslenskra stjórnvalda og mögulega þátttöku í sameiginlegum aðgerðum með bandalagsþjóðum. Það hefði jafnframt mátt boða til fundar í hv. utanríkismálanefnd og ræða þessar vendingar á vettvangi þingsins. Þó svo að ég efist ekki um að samstaða sé með Úkraínumönnum hjá meiri hluta þingheims, samanber yfirlýsingar hæstv. ráðherra síðustu daga, hefur stjórnmálasagan sýnt okkur að einhliða stuðningur ráðherra við hernaðaraðgerðir er ekki líklegur til vinsælda.