152. löggjafarþing — 44. fundur,  1. mars 2022.

um fundarstjórn.

[13:39]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Herra forseti. Ég vek athygli á því að þetta er ekki í fyrsta skipti sem þetta mál kemur inn til þingsins. Meginhluta þess hefur verið hafnað af þinginu ítrekað. Það sem við erum fyrst og fremst að mótmæla hér er náttúrlega að það skuli eiga að bera þetta á borð þingsins eina ferðina enn, en ekki síst undir hvaða formerkjum. Það er undir þeim formerkjum að það sé ekki pláss fyrir flóttafólk sem við erum öll sammála um að þurfi á vernd að halda. Þetta er algjörlega óboðlegt og það er þetta fyrst og fremst sem stingur núna; að það eigi að vísa út á götu eða vísa úr landi fólki sem er flóttafólk, til að taka við flóttafólki sem er fætt einhvers staðar annars staðar.

Mig langar að koma með tillögu fyrir hæstv. dómsmálaráðherra: Ef hann hefur fyrst og fremst áhyggjur af dvöl fólks í búsetuúrræðum Útlendingastofnunar er til mjög fljótleg leið til þess að leysa þann vanda. Það er að veita þessu fólki leyfi til dvalar á Íslandi svo það geti farið að hefja sitt líf og geti séð um sig sjálft. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)