152. löggjafarþing — 44. fundur,  1. mars 2022.

kosningar að hausti.

[16:49]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Frú forseti. Frá því í júní í fyrra og fram til desembermánaðar var Alþingi í reynd ekki starfandi nema að mjög takmörkuðu leyti. Það þýðir að ríkisstjórnin varð að mestu leyti til án aðhalds og eftirlits þingsins. Við getum sett þetta í samhengi við sóttvarnapólitíkina. 26. júní voru allar samkomutakmarkanir á Íslandi felldar úr gildi. Þær tóku við sér á ný mánuði seinna; 3. september voru settar nýjar reglur, 15. september voru settar nýjar reglur, afléttingar 20. október, 5. nóvember var hert, aftur 12. nóvember og inn í desembermánuð. Allan þennan tíma var þing ekki að störfum nema að takmörkuðu leyti vegna haustkosninga og vegna þess að stjórnin tók sér svo átta vikur í stjórnarmyndunarviðræður um óbreytt samstarf. Með haustkosningum var eftirlitshlutverk þingsins veikt með afgerandi hætti og það er í mínum huga alvarleg aðgerð ríkisstjórnarinnar gagnvart þinginu.

Annar punktur: Við afgreiðslu fjárlaga í desember var gert ráð fyrir því að ríkissjóður yrði rekinn með 170 milljarða kr. halla. Þingið hafði við þessar aðstæður hluta desembermánaðar til að vinna fjárlögin, verkefni sem alla jafna tekur allt haustið og er stærsta verkefni alls haustsins. Til viðbótar ákvað ríkisstjórnin við þessar aðstæður að fjölga ráðuneytum, fjölga ráðherrastólum, sem mun kosta um 1,8 milljarða þetta kjörtímabil, og ríkisstjórnin er orðin, eins og við þekkjum, sú fjölmennasta í meira en áratug. Til viðbótar tóku þessi nýju ráðuneyti síðan ekki til starfa fyrr en 1. febrúar. Kosningar fóru fram 25. september, ríkisstjórnin var mynduð 28. nóvember og ráðuneytið rúllaði af stað 1. febrúar. (Forseti hringir.) Haustkosningar skiluðu því að þing var í reynd ekki starfandi svo mánuðum skipti. (Forseti hringir.) Starf allra ráðuneyta var síðan í hægagangi vegna 2 milljarða kr. ráðherrakapalsins. Þetta er sviðsmyndin sem máli skiptir.