152. löggjafarþing — 44. fundur,  1. mars 2022.

hegningarlög.

389. mál
[17:25]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Aftur hittir hv. þingmaður naglann á höfuðið. Þarna er einmitt mál sem þarf að ávarpa sérstaklega og skoða. Það á ekki bara við um þennan brotaflokk heldur mörg önnur sakamál sem upp koma og tengjast alþjóðlegri brotastarfsemi. Eins og skýrslur sem við höfum fengið frá lögreglunni bera með sér búum við við vaxandi vandamál hvað þetta varðar. Lögreglan þarf einmitt að fá víðtækari heimildir til að geta tekið þátt í samstarfi, tekið á móti upplýsingum, veitt upplýsingar og unnið úr upplýsingum frá öðrum lögregluliðum. Þetta er mjög takmarkandi þáttur í dag og ég er með á málaskrá frumvarp sem mætir þessum sjónarmiðum og ég vænti þess og vonast til að við getum klárað það fyrir vorið.