152. löggjafarþing — 46. fundur,  3. mars 2022.

tekjustofnar sveitarfélaga.

78. mál
[14:44]
Horfa

Flm. (Ásthildur Lóa Þórsdóttir) (Flf) (andsvar):

Forseti. Varðandi það hvort sveitarfélag þurfi að ákveða eitt og sér álagningu fasteignagjalda og hver prósentan skuli vera eða kostnaðurinn á hvern fermetra í sínu sveitarfélagi eða hvort það er tekin einhver ríkisákvörðun um það þá veit ég í sjálfu sér veit ekkert endilega hvort það ætti að vera. Það hlýtur að vera hægt að finna leiðir til þess. Það sem þetta mál snýst um hins vegar er að það hafa orðið ansi margir mikinn hag af því að halda fasteignaverði hátt á lofti. Þetta eru sjálfvirkir skattar, eitthvað sem hækkar sjálfkrafa og það bara gengur ekki upp að það séu engar reglur um það og að pólitískt kjörnir fulltrúar beri enga pólitíska ábyrgð á því hvernig fasteignaskattar eru í sveitarfélögum þeirra nema að litlu leyti. Þeir mega ekki fara hærra en eitthvað ákveðið gagnvart fasteignaverði en engu að síður fara fasteignagjöld eftir því. Eins og núna undanfarið, allt í einu hækkaði fasteignaverð mjög skart. Það breytir engu um ráðstöfunarfé fólks. Það skiptir engu máli þótt eignastaða þess hafi batnað eins og fjármálaráðherra er alltaf að tala um af því að það býr allt í einu í eign sem markaðurinn segir að sé dýrari en áður. Þau hafa enn þá það sama milli handanna til að standa undir heimilinu, að kaupa mjólk og brauð og annað þess háttar. Þau hafa ekkert meira á milli handanna. Þarna er skattur sem hækkar sjálfkrafa og enginn ber ábyrgð á. Það er bara verið að leggja það til að hann verði fyrirsjáanlegur, að fólk geti séð, ef það kaupir eign sem er þetta margir fermetrar, hvað það borgar í fasteignaskatta og já, að það megi ekki hækka meira en 2,5% á ári. Það sé tekin ákvörðun um það, það sé hægt að spyrja einhvern út í það og það sé einhver ábyrgð.