152. löggjafarþing — 49. fundur,  9. mars 2022.

kosningalög og starfsemi stjórnmálasamtaka.

424. mál
[17:22]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni og formanni stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, Þórunni Sveinbjarnardóttur, fyrir framsöguna í þessu máli. Nú er það svo að lögin sem nú er verið að breyta enn einu sinni, til að lagfæra þau fyrir kosningar, eru í raun samþykkt rétt fyrir sumarhlé þingsins, áður en kosningar tóku við. Það að kosningar hafi verið að hausti held ég að hafi líka heilmikið um það að segja hversu seint við grípum þessi mistök. Þegar kosningar eru í farvatninu er fátt annað sem kemst að og margt sem fer í bið í ráðuneytunum. Og svo þegar það tekur fleiri vikur að greiða úr kosningaskandölum og fleiri vikur að mynda sömu ríkisstjórn og búið var að mynda áður þá eykst sá tími sem fer í að gera ekki neitt og sá tími styttist sem við höfum til að vinna vinnuna okkar.

Ég vil velta því upp að haustkosningarnar hafi haft margvíslegar neikvæðar afleiðingar í för með sér og þar á meðal að við erum óðfluga að nálgast sveitarstjórnarkosningar og það er alls ekki gott mót að vera að breyta kosningalögum svona stuttu fyrir kosningar, fyrir utan það hvað það er stórkostlega skrýtið að hafa svona stutt á milli alþingis- og sveitarstjórnarkosninga. (Forseti hringir.) Ég er kannski ekki með beina spurningu til hv. þingmanns nema það hvort haustkosningarnar setji aukið álag á nefnd hv. þingmanns, sem hún er formaður fyrir.