152. löggjafarþing — 49. fundur,  9. mars 2022.

kosningalög og starfsemi stjórnmálasamtaka.

424. mál
[18:29]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Mér heyrðist hún segja að það væri kosningar eftir fjórar mínútur. Ég er ekki viss um að svo sé, ég held að það séu kosningar eftir rúma tvo mánuði. Jú, það er full ástæða til að hafa áhyggjur af því að við þurfum að gera nokkrar breytingar fram að næstu kosningum miðað við hvernig þetta hefur gengið og nokkrar breytingar fram að næstu þingkosningum eftir allt að því þrjú ár, rúm. Við skulum vona að það verði þingkosningar fyrr. Já, algjörlega. Auðvitað ætlar sér enginn að gera mistök og einhverjir kunna að segja núna þegar við stöndum hér, við sem vorum að afgreiða þetta um jól, síðasta sumar, síðasta vor: Af hverju rákuð þið ekki augun í þetta fyrst þið eruð svona óskaplega klár? En það er einhvern veginn þannig að þegar um er að ræða langar atkvæðagreiðslur í þinginu sem jafnvel teygja sig inn í nóttina þá er maður nú kannski ekki að liggja yfir málum sem koma úr öðrum nefndum til að velta fyrir sér, orð fyrir orð, hvað stendur þar. En ég verð að segja að þetta er nú einstaklega klaufalegt. Ég man eftir — ja, ég fer yfir það í seinna andsvari.