152. löggjafarþing — 51. fundur,  14. mars 2022.

hugsanleg aðild að ESB.

[16:21]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Frú forseti. Það sem mér finnst skipta mestu máli er að við erum í gegnum EES-samstarfið að ná bæði samstarfi og ávinningi fyrir íslenskt samfélag og í alþjóðlegu samstarfi innan Evrópusambandssvæðisins með fullnægjandi hætti. Aftur: Ég óska Evrópusambandinu góðs gengis í öllum verkefnum sem þau taka sér fyrir hendur í þessu samhengi og við styðjum þau til allra góðra verka og það höfum við gert. En varðandi umræðu um Evrópusambandsaðild Íslands núna þá er í mínum huga ekkert tilefni til að efna til einhvers óvinafagnaðar um Evrópusambandsaðild. Ég vona að við höfum bara þann þroska til að setja hlutina í eðlilegt samhengi. Þessi innrás í Úkraínu af hendi rússneskra stjórnvalda og Rússlandsforseta snýst ekkert um aðild okkar þar inni eða ekki, og aðild Íslands að Evrópusambandinu snýst heldur ekki um þá innrás. Við erum vina- og bandalagsþjóð Evrópusambandsríkjanna, (Forseti hringir.) vinnum mjög náið með þeim í gegnum EES-samninginn og verðum ekki varin hernaðarlega eða varnarlega (Forseti hringir.) af hálfu Evrópusambandsins heldur erum við það varnarlega í gegnum Atlantshafsbandalagið.