152. löggjafarþing — 52. fundur,  15. mars 2022.

um fundarstjórn.

[14:29]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Herra forseti. Ég vildi bara taka undir það sem var sagt hér áðan. Við eigum í ýmiss konar umræðum hér á þinginu, við ræðum hér lagafrumvörp og þá er hægt að koma í andsvör við þær ræður sem eru fluttar eða bæta sjálfum sér á mælendaskrá. Í fundarstjórn forseta geta allir kveðið sér hljóðs. Undir liðnum um störf þingsins er ekki um það að ræða og það er hvorki hægt að bæta sér á mælendaskrá eftir á né fara upp í andsvör við fólk sem kemur hingað upp og talar. Mér brá heldur í brún þegar ég heyrði ræðu hv. þingmanns hér áðan þar sem hann bauð upp á orðastað við aðra þingmenn undir lið þar sem þeir geta hvorki borið hönd fyrir höfuð sér né svarað þingmanninum með öðrum hætti. Mér hefur reyndar aldrei verið sagt að þetta sé ekki við hæfi eða megi ekki en mér finnst það liggja í augum uppi að það sé ekki eðlilegt að gagnrýna fólk sem getur ekki svarað því. Ég vil því bara (Forseti hringir.) taka undir það sem hv. þm. Andrés Ingi Jónsson var að segja hér og spyr kannski bara af forvitni hvert hlutverk forseta sé við þessar aðstæður.