152. löggjafarþing — 52. fundur,  15. mars 2022.

kosningalög og starfsemi stjórnmálasamtaka.

424. mál
[18:30]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Ég vil að eitt mikilvægt, eða tvennt öllu heldur, komi fram hér í umræðunni og það varðar þá umfjöllun sem við fengum vegna niðurfellingar málsins í Norðvesturkjördæmi. Það er ekkert í umfjöllun þingsins, greinargerðum, umsögnum eða neitt svoleiðis, sem bendir til þess að það hafi verið ætlun þingsins að breyta einhverju um þau viðurlög sem myndu eiga við vegna vanrækslu í framkvæmd kosninga. Það er gleðiefni að sjá að Karl Gauti Hjaltason, fyrrverandi alþingismaður, ætlar að halda áfram og kæra það mál til ríkissaksóknara og verður áhugavert að sjá það. Ef það er þannig að ekkert í núgildandi lögum gefur lögreglustjóranum í Norðvesturkjördæmi tilefni til að halda málinu áfram þá er það undarlegt því að það þyrfti í raun að vera skýrt skilgreint, eða fjallað um það á einhvern hátt, að verið væri að breyta þeim hluta.

Í allri umræðunni og í umsögnum í greinargerð o.s.frv. er bara verið að fjalla um hvernig eigi að einfalda það að geta aðlagað einstaka atriði í hrárri framkvæmd kosninga án þess að það þurfi endilega að koma inn til þingsins að breyta einstökum skilyrðum, t.d. varðandi það hvernig kjörkassar eiga að líta út eða eitthvað svoleiðis. Öryggisskilyrði um innsigli og þvíumlíkt væri þá hægt að uppfæra í reglugerð frekar en það þyrfti að fara í gegnum heila umræðu í þinginu og þess háttar.

Hitt sem mig langar til að fjalla um er breytingartillaga, sem var skorað á mig að koma fram með aftur, við frumvarp til kosningalaga en hún orðaðist þannig að verið væri að breyta fjölda þingsæta í 36 kjördæmissæti og 27 jöfnunarsæti, þ.e. sex lágmarkssæti sem hvert kjördæmi ætti rétt á samkvæmt stjórnarskrá, að ekki væri hægt að breyta því nema að breyta stjórnarskránni, en að öll hin sætin væru í raun bara jöfnunarsæti og þeim væri úthlutað á milli kjördæma miðað við það hversu margir búa í hverju kjördæmi. Það yrði því aðeins sveigjanlegra að breyta því en áður. Í þetta skipti væri kannski ekki alveg viðeigandi að leggja þá breytingartillögu fram svona seint í umræðunni, plús það að um er að ræða frumvarp nefndar. Ég held að það þurfi umræðu um þetta mál og stjórnarliðar þurfa að geta tekið þátt í þeirri umræðu með góðum fyrirvara. Ég veit að annars myndu þau einfaldlega koma upp í atkvæðagreiðslunni hér á eftir og segja: Við höfum engan tíma til að skoða þetta og við vitum ekki neitt. Og svo myndu þau bara ýta á rauða takkann. Það væri sjálfsagt afsökunin, maður ætti að sjálfsögðu að vita hvernig þetta er, það er ekkert ómálefnalegt að segja slíkt.

Hitt sem mig langaði til að nefna er að hv. þm. Sigmar Guðmundsson fjallaði um það hversu marga þingmenn hinir og þessir flokkar hefðu fengið umfram hlutfallslegan atkvæðafjölda. Ef við tökum bara hlutfall atkvæða sem við deilum niður á flokka á landsvísu þá fékk Sjálfstæðisflokkurinn 16 þingmenn en ætti hlutfallslega bara rétt á 15 þingmönnum, hann fékk í raun 15 þingsæta atkvæðahlutfall. Framsóknarflokkurinn fékk 13 þingmenn en ætti hlutfallslega bara rétt á tíu þingsætum, fær síðan einn jöfnunarmann, er með mörg atkvæði á bak við hann. Hinn flokkurinn sem er í raun út undan er Sósíalistaflokkurinn sem fékk engan þingmann en átti hlutfallslega rétt á tveimur þingmönnum og náði síðan einum jöfnunarþingmanni eða hlutaþingmanni inn og ætti þar af leiðandi að vera með þá þrjá þingmenn sem Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur eru með.