152. löggjafarþing — 52. fundur,  15. mars 2022.

mótun stefnu í aðdraganda aðgerðaáætlunar í heilbrigðisþjónustu við aldraða til ársins 2030.

418. mál
[21:50]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni andsvarið. Þetta varðandi aldurinn og aldursviðmiðin og notendur, ef ég ætla bara að tjá mína persónulegu óskaafstöðu þá myndi ég vilja að við hættum að skilgreina aldur á fjölmörgum sviðum. Blessunarlega erum við — af því að hv. þingmaður kom inn á eldri kynslóðir og mikilvægi þess að búa þeim gott ævikvöld sem ólu okkur upp og lögðu grunn að svo mörgu í okkar samfélagi — hressari og betur á okkur komin lengur. Ef okkur tekst að fylgja eftir háleitum markmiðum um forvarnir og bætta lýðheilsu, hvort sem við erum að tala um félagslega, andlega eða líkamlega lýðheilsu, þá getum við mögulega farið að horfa til slíkrar óskastöðu þannig að aldursviðmiðin eigi ekki að stoppa okkur í einu eða neinu sem við erum að gera. Við eigum ekkert að vera bundin af því. Ég held að það þurfi auðvitað mikla viðhorfsbreytingu. Þá þurfum við að fara að breyta ansi miklu. En ég held að með tíð og tíma muni það gerast.

Markmið og mælanlegur árangur — hér eigum við nefnilega að geta gert það. Hér eigum við að geta sett okkur markmið um það hvernig við nálgumst þetta verkefni vegna þess að við getum sett verðmiða á daggjöld á hjúkrunarheimilum og við vitum nákvæmlega hvar aldurshóparnir liggja. Þó að hver og einn einstaklingur þurfi ekki að vera upptekinn af því hvað hann er gamall eða hvort hann fari að tilheyra einhverjum aldurshópi, hann bara lifir lífinu eins og honum líður til, þá getum við líka mælt það, ef við náum að hægja á uppbyggingu hjúkrunarheimila, mælt það í daggjöldum og forðað því að fólk þurfi að fá þjónustu allan sólarhringinn þar, geti jafnvel bara búið heima án þjónustu eða þarf heimaþjónustu (Forseti hringir.) eða dagdvöl. Við getum sett verðmiða á þetta allt og mælt árangurinn þannig.

(Forseti (LínS): Ég minni hæstv. ráðherra á að virða tímamörk.)